Þormóður Jónsson í fimmta sæti á heimsbikarmóti í Póllandi dag.

Þormóður Jónsson Í þungavigtinni (+100kg) hjá Þormóði voru 42 keppendur. Í fyrstu glímu sigraði Þormóður  Georgíumanninn Adam Okroashvili eftir eina mínútu á ippon, næst glímdi hann við Emil Tahirov frá Aserbadjan sem hann kastaði á ippon eftir aðeins 27 sekúndur. Þriðja glíman var svo við Mykola Kartoshkin frá Úkraínu, en Þormóður sigraði hann á tveimur waza-ari eftir 1 mínútu og 25 sekúndur. Þegar hér var komið við sögu var Þormóður kominn í fjögurra manna úrslit og mætti þar Frakkanum Pin Adrien en tapaði fyrir honum með tveimur waza-ari eftir um þrjár mínútur. Þormóður keppti því um bronsið gegn Rafael Silfa frá Brasilíu. Sú glíma var í járnum framan af og fóru þeir varlega í að sækja, Þormóður fékk þó aðvörum fyrir sóknarleysi um miðja glímu og þegar um tvær mínútur voru eftir af glímunni fékk Rafael gott tækifæri og kastaði Þormóði á ippon og endaði Þormóður því í fimmta sæti.

Það má svo sanni segja að Þormóður hafi vaðið í gegnum andstæðinga sína af miklum krafti, og greinilega verið ólmur að sýna heiminum hvað í sér býr eftir að hafa fengið heimsmeistarann Daiki Kamikawa frá Japan í fyrstu umferð á síðustu þremur stórmótum. Þetta er besti árangur Þormóðs á keppnisferli hans til þessa en hann hefur tvisvar áður komist í sjöunda sæti á heimsbikarmóti. 100 kg World Cup Warsaw 2011

Hermann Unnarsson Í 81 kg flokknum sem Hermann keppir í voru 60 keppendur og mætti hann Eistlendingnum Georgi Ladogin sem varð þriðji á Evrópumeistaramóti U20 árið 2008. Þetta var hörkuglíma og átti Hermann ekkert minna í henni frekar en Georgi en þegar um tvær mínútur voru eftir af glímunni komst Georgi inn í gott kast (Kata-guruma) og vann á ippon og þar með var Hermann úr leik. 81 kg World Cup Warsaw 2011