KrossMagnús Ólafsson fyrrum formaður Júdófélags Reykjavíkur og Júdósambands Íslands lést sunnudaginn 24. Júlí sl. Magnús var einn af upphafsmönnum júdó á Íslandi og virkur iðkandi og keppandi fyrstu árin en síðar meir voru það félagsstörfin sem heilluðu og kom hann bæði að stofnun JR og síðar að stofnun JSÍ.

Magnús var í stjórn JSÍ meira og minna frá 1989, fyrst sem meðstjórnandi og endurskoðandi og síðar gjaldkeri til fjölda ára eða þar til hann var kosinn formaður árið 2002 og gegndi því starfi í ellefu ár. Magnús var stofnfélagi Júdófélags Reykjavíkur árið 1965 og formaður þess frá 1999 til 2015.

Þessi langa viðvera hans í stjórnum JSÍ og JR var ekki vegna þess að hann sjálfur sæktist eftir formennskunni heldur það að hann var ákaflega vel liðinn og traustur og menn vildu hafa slíkan mann í forsvari. Undir lokin var Magnús orðinn heilsuveill og gaf því ekki lengur kost á sér til ábyrgðarstarfa fyrir júdóhreyfinguna.

Hann var sæmdur heiðurskrossi ÍSÍ og gullmerki JSÍ þegar hann lét af formennsku árið 2013 fyrir ómetanlegt starf í þágu íþróttarinnar á Íslandi og var í framhaldi gerður að heiðursformanni JSÍ.

Júdómenn þakka Magnúsi Ólafssyni að leiðarlokum áralanga samveru og kveðja góðan vin og félaga með söknuði og virðingu og senda ástvinum hans hugheilar samúðarkveðjur.

Útför Magnúsar fer fram í Bústaðarkirkju þriðjudaginn 2. ágúst kl. 13.

Magnús Ólafsson