Það voru fimm íslenskir judomenn sem kepptu erlendis síðustu helgi þ.e. dagana 27 til 29 júlí en það voru þeir Grímur Ívarsson og Úlfur Böðvarsson sem kepptu á Junior European Cup í Berlín  og á Grand Prix í Zagreb kepptu þeir Egill Blöndal -90 kg, Logi Haraldsson og Sveinbjörn Iura báðir í -81 kg. Berlín í beinni útsendingu og hér er drátturinn. Grand Prix í Zagreb í beinni útsendingu og hér er drátturinn.

Það verður að segjast eins og er að okkar menn í Berlín áttu ekki góðan dag  og kanski ekki nema von því þeir eru eflaust orðnir þreyttir eftir fjórar keppnishelgar í röð og erfiðar æfingabúðir á milli en þetta er langhlaup og á þessi fjögurra vikna keppnis og æfingaferð örugglega eftir að skila sér síðar meir. Grímur átti fyrstu viðureign í -90 kg flokknum á sunnudaginn og mætti hann Luka Fettkoether frá Þýskalandi. Glíman var nokkuð jöfn og voru báðir aðilar komnir með tvö shido en Luka náði að skora Wazaari eftir rúma mínútu og ippon þegar tæp mínúta var eftir af viðureignini. Glíman hans Úlfs var öllu styttri og varla byrjuð þegar andstæðingur hans, Giovani Ferreira frá Brasilíu fór eldsnöggt inn í bragð og skoraði ippon með uchimata. Hér eru klippurúr viðureignum þeirra í Berlín.

Í Zagreb áttu okkar menn hörku glímur sem þeir reyndar töpuðu en þær hefðu alveg getað farið á hinn veginn en einhvern veginn lagðist ekkert með okkur þennan daginn. Logi mætti Tamazi Kirakozashvili frá Georgíu sem er fyrrum Evrópumeistari juniora og silfurverðlaunahafi frá heimsmeistaramóti Juniora og gullverðlaunahafi frá Grand Prix í Tiblisi 2018. Logi byrjaði af krafti og hafði í fullu tré við hann, náði sínum tökum og átti góðar tilraunir með uchimata og lyfti Tamazai upp en náði ekki að klára bragðið. Tamazai var mjög ógnandi og sótti í soto tsurikomi, tsuru komi goshi og kosoto gake og í einni sókninni sem að Logi varðist til að byrja með komst Tamzai með mikilli eftirfylgni í beer hug og kastaði Loga á uranage og fékk ippon fyrir kastið sem var kröftugt, hratt og vel stýrt en ekki endilega víst að Logi hafi lent á bakinu heldur frekar á hliðinni og ef svo er þá var ippon full vel gefið en shit happens. Þá var það Sveinbjörn en hann  mætti Sumpor Dominick frá Króatíu.  Sveinbjörn var síst lakari aðilinn og var hann sífellt ógnandi en því miður á árangurs. Þegar viðureignin er umþað bil hálfnuð fer Dominick í arfaslakt tomonage og einhvern veginn nær hann að snúa Sveinbirni á hliðina og skorar wazaari. Við fyrstu sýn virðist þetta ekki vera neitt og og dómarinn dæmir ekkert fyrr en hann fær tiltal í eyrað en þá eu tölvudómarar búnir að skoða kastið og sjá út að Sveinbjörn lendir á hliðinni að hluta og samkvæmt reglunum telst það wazaari. Eftir þetta skor pressaði Sveinbjörn enn meira og var Dominick kominn í vörn og með eitt shido en það dugði ekki til  Sveinbjörn náði ekki að skora og tapar hann viðureigninni á fyrrgreindu wazaari eftir fullan glímu tíma. Þá var komið að Agli en hann mætti Cassar Harrisson frá Ástralíu. Egill var hér sterkari aðilinn en eins og áður sagði féll ekkert með okkar mönnum. Egill átti líklega einar átta sóknir sem hann náði ekki að skora úr en Cassar tvær og skorar úr báðum. Fyrra skorið kom snemma í viðureigninni en Egill sótti í seoinage sem misheppnast en Cassar nær að koma með mótbragð og skorar wazaari. Egill pressar á Cassar og ógnar honum með ýmsum brögðun sem hann nær að verjast en fær á sig refsistig fyrir ólöglega vörn og sóknarleysi og er kominn með tvö shido og ef hann hefði fengið það þriðja þá hefði hann tapað glímunni og þess var ekki langt að bíða því Egil sótti stíft og pressaði á hann og var ekki langt frá því að jafna leikinn þegar hann náði beer hug á Cassar og nær ágætist kasti  en hann bjargaði sér á magann og ekkert skor.  Þegar um 45 sekúndur voru eftir reyndi Egill kouchi gari en var ekki í góðu jafnvægi og Cassar nýtti sér það og komst í tanio toshi og skorar annað wazaari og þar með var glímunni lokið.  Heilt yfir glímdu allir strákarnir okkar feyki vel í Zagreb, engin minnimáttarkennd þrátt fyrir þekkta og öfluga mótherja, sterkir í tökunum og alltaf ógnandi og hefði það verið sanngjarnt að bera meira úr býtum en raunin varð. Ef þeir halda áfram að æfa og glíma með sama hætti og þeir hafa gert og af þessum krafti þá verður þess ekki langt að bíða að  einhver þeirra komist í topp átta  á Grand Prix móti. Hér eru klippur frá glímunum þeirra í Zagreb.