Sveinbjörn, Logi, Jón Þór og Egill

Strákarnir höfðu ekki lánið með sér í Ungverjalandi á Budapest Grand Prix  en þeir féllu allir úr keppni í fyrstu umferð. Logi var lítið kominn inní glímuna þar sem hann hafði ekki náð ekki góðum handtökum á Nicon Zaborosciuc (MDA) sem virtist vera sterkari í þeim en það var þó ekkert farið að reyna á það að ráði því eftir aðeins rúma mínútu nær hann góðu taki á Loga og fer eldsnöggt inn í bragð með annari hendinni og fylgir vel eftir og Logi endaði á bakinu. Það var eitthvað svipað hjá Agli því þegar viðureignin var um það bil hálfnuð og eftir hörku baráttu þar sem ekki mátti á milli sjá hvor hafði betur þá nær Rafal Kozlowski  frá Póllandi skyndilega að festa hægri hendina á Agli og lagðist svo í seoi-nage en Egill náði ekki að stöðva sóknina og féll á bakið og ippon var dæmt. Það verður að segjast eins og er að bæði köstin þ.e. gegn Loga og Agli voru vel útfærð og falleg. Viðureign Sveinbjörns gegn Medickson Del Orbe (DOM) var nokkuð jöfn og hafði Sveinbjörn yfirhöndina fyrstu tæpar tvær mínúturnar en Medickson var þá kominn með shido fyrir sóknarleysi en þá var komið að Sveinbirni að fá refsistig. Þegar um tvær mínútur eru eftir fær hann sitt fyrsta shido fyrir “False Attack” (gervisókn) og annað aðeins hálfri mínútu síðar. Hann mátti því ekki fá fleiri refsistig því þá væri hann búinn að tapa. Eins og áður sagði voru þeir mjög jafnir og börðust vel og þegar um tuttugu sekúndur eru eftir að viðureigninni þá gerðist það, Sveinbjörn fær sitt þriðja shido og tapaði þar með glímunni.