Gull, silfur og brons hjá okkar mönnum

Það voru tæplega 200 keppendur frá 12 þjóðum sem kepptu á Matsumae Cup um helgina og þar af voru 10 keppendur frá Íslandi.  Auk keppenda var einn íslenskur alþjóðlegur dómari á mótinu en Þórir Rúnarsson dæmdi þar og fer af því loknu til Póllands og dæmir á heimsbikarmóti í Warsjá næstu helgi.

Keppendur okkar eru: -70 kg     Anna Soffía Víkingsdóttir-73 kg     Eiríkur Ingi Kristinsson, Hermann Unnarsson og Kristján Jónsson-81 kg     Axel Ingi Jónsson og Sveinbjörn Jun Iura-90 kg     Jósep Þórhallsson og Sævar Róbertsson+100 kg Ásgeir Örn Þórsson og Þormóður Árni Jónsson Auk ofangreindra áttu þeir Birgir Ómarsson og Jón Þór Þórarinsson einnig að keppa í -81 kg flokknum en komust ekki vegna meiðsla og veikinda.  Keppnin stóð yfir í tvo daga og kepptum við í  -70,-81,-90,+100 kg fyrri daginn og þann seinni í -73 kg og opnum flokki karla og kvenna.  Anna Soffía keppti fyrst við Hollending og vann hana en tapar næstu gegn Japana og keppir um bronsið við annan Hollending en tapar þar og endar því í fimmta sæti.  Axel Ingi Jónsson vann fyrstu viðureign gegn Dana en tapar þeirri næstu gegn Svía og einnig uppreisnarglímu gegn Kýpur og er úr leik. Sveinbjörn vinnur fyrstu gegn Dana en tapar þeirri næstu óverðskuldað á gullskori gegn Pólverja. Kanski hafði það eitthvað með aðaldómarann að gera en hann var Pólskur!  Í uppreisnarglímu tapar hann einnig en nú fyrir Finna og lýkur keppni. Jósep fékk þrjár glímur og vinnur fyrstu gegn Japan en tapar tveim næstu, fyrst gegn Svía á shido og síðan gegn sterkum Dana.  Jósep eins og Axel og Sveinbjörn urðu í 9. sæti í sínum þyngdarflokkum. Sævar keppir við Japana sem vinnur síðan flokkinn í fyrstu glímu og þeirri síðari gegn Svía og tapar þar einnig.  Ásgeir keppir einnig í fyrstu glímu við Japana sem vinnur síðan +100 kg flokkinn. Því miður meiddist Ásgeir lítillega í fyrstu glímu en nóg til þess að hann treystir sér ekki í uppreisnarglímu og hættir keppni. Þormóður lenti eingöngu á Japönum sem voru fjölmennir á mótinu. Hann situr hjá í fyrst umferð en mætir síðan Japana sem hafði slegið út þjóðverja þar á undan og vinnur hann. Aftur mætir hann Japana og vinnur hann einnig og að lokum í úrslitum tapar Þormóður gegn þeim þriðja og endar því með silfrið.     

Seinni daginn byrjar Hermann keppni og tapar fyrst fyrir Hollendingi á yuko og þar á eftir gegn Svía á wazaari og lýkur keppni. Kristján tapar fyrstu viðureign gegn Kýpur en fær uppreisn og vinnur þá Dana. Hann þarf að bíða aðeins eftir því hverjum hann mætir næst úr öðrum uppreisnarglímum.  Eiríkur vinnur USA á fallegu sópi alveg í lok glímunnar en USA hafði verið yfir fram að því. Næst mætir hann Japana og tapar en fær uppreisn og á þá að mæta Kristjáni. Glíma þeirra var mjög jöfn en fór þó að lokum að Eiríkur fær tvisvar shido og Kristján sigrar því á yuko.  Fjórða viðureign Kristjáns er gegn Finna og tapar Kristján að lokum á armlás. Af 31 keppanda lendir Kristján í 13 sæti og Eiríkur í 17 sæti. Í opnum flokki karla voru 23 keppendur og þar af allmargir Japanir. Enn og aftur fengu þeir að finna fyrir Móða því hann glímdi við fimm þeirra og vinnur fyrstu fjóra en tapar í úrslitum gegn þeim fimmta sem hann hafði unnið daginn áður í þungavigtinni og fékk því sitt annað silfur. Anna Soffía hafði yfirburði í opnum flokk kvenna og vinnur fyrst Hollending á Ippon og í úrslitum Japana og einnig á ippon með kata-guruma og þar með gullverðlaunin.

Að loknu móti eru veitt verðlaun til liða samkvæmt ákveðnu árangurskerfi. Japanir voru með tvö lið eitt frá Tokai og hitt frá IBU og í karlasveitum fengu þau gull og silfurverðlaun og Íslenka karlasveitin bronsverðlaun og þar spila tvenn silfurverðlaun Þormóðs stóra rullu.

Þormóður glímdi einar átta viðureignir gegn Japan og vann sex þeirra sem verður að teljast harla gott gegn sterkri júdóþjóð eins og Japan er. Að loknu móti eru þriggja daga æfingabúðir og þar fá okkar menn frábært tækifæri til að reyna sig við fjölmennt lið Japana og annar þjóða sem þar verða. Sævar Róbertsson og Ásgeir Örn Þórsson eru aðeins 16 ára gamlir og voru að keppa á sínu sterkasta móti til þessa og það ásamt æfingabúðunum er undirbúningur fyrir þátttöku þeirra á EYOF í sumar.

Anna Soffía Víkingsdóttir og Þormóður Jónsson