Þormóður Árni og Anna Soffía á HM

Anna_Soffia.jpg

Þessa helgi koma saman rúmlega 500 af bestu Júdó mönnum og konum heims í Rotterdam til að keppa á heimsmeistaramótinu í Júdó. Ísland er þar með tvo fulltrúa, þau Þormóð Árna Jónsson og Önnu Soffíu Víkingsdóttur. Keppni Íslendinganna hefst laugardaginn 29.ágúst þegar Anna Soffía keppir í -70kg
þyngdarflokki. Anna Soffía glímir fyrstu glímu dagsins á móti Lucie Decosse frá Frakklandi. Það má segja að Anna Soffía hafi verið heldur óheppin að fá Decrosse í fyrstu glímu því hún er heimsmeistari frá 2005, silfurverðlaunahafi frá HM2007 og silfurverðlaunahafi frá Ólympíuleikunum í Peking.
Á sunnudeginum keppir Þormóður í +100kg þyngdarflokki. Landsmenn ættu að muna eftir honum frá Ólympíuleikunum í Peking  í fyrra þar sem hann lenti í  13. sæti. Fyrsta glíma Þormóðs er við Semir Pepic frá Ástralíu sem er upprunalega frá Tékklandi og hefur hann unnið til silfurverðlauna á Evrópumeistarmóti. En í dag er Pepic fimmfaldur Eyjaálfumeistari, nú síðast í júní 2009. Þormóður hefur áður mætt Pepic, það var á heimsbikarmóti í Austurríki árið 2006 og laut þá Þormóður lægri hlut. Upplýsingar og netlýsingu frá mótinu er hægt að finna á http://www.judo2009.com og
http://www.ippon.org