Nokkur ungmenni þau Egill Blöndal, Gísli Haraldsson, Hlín Hilmarsdóttir, Kjartan Magnússon, Kristján Örn Hansson og Logi Haraldsson eru á leið í æfingabúðir í Slagelse í Danmörku sem hefjast um helgina og standa yfir í eina viku. Þetta eru árlegar æfingabúðir kallaðar Danish Judo Summer Camp og haldnar í íþróttaháskóla skammt fyrir utan Slagelse. Æfingabúðirnar eru fyrir seniora og juniora og búist við um 150 þátttakendum 17 ára og yngri og  um 100 þátttakendum 18 ára og eldri. Danska landsliðið er meðal þátttakenda og einnig er búist við þátttakendum frá Frakklandi og Póllandi.  Fjöldi frábærra þjálfara munu sjá um æfingarnar og þar á meðal er Margrét Ragna Bjarnadóttir fyrrum landsliðskona okkar en hún býr í Danmörku og er gift Simon Koch einum besta júdómanni Dana. Hún mun verða okkar krökkum innan handar meðan á dvölinni stendur.