20121006_113340Það var spennandi úrslitaviðureignin í Bikarnum um helgina. Þar áttust við sveit JR og sveit Ármanns eins og svo oft áður. Í léttasta flokknum -66 kg mættust þeir Janusz Komendera úr JR og Eysteinn Finnsson úr Ármanni og vann Eysteinn viðureignina að lokum á ippon eftir gríðalega spennandi og jafna glímu. Ekki var næsta viðureign síður spennandi en þar mættust þeir Eiríkur Kristinsson ú JR og Tómas Tómasson ú Ármanni í -73 kg flokknum. Fyrirfram var nú frekar reiknað með að reynsluboltinn Eiríkur myndi vinna þessa viðureign en það var sýnd veiði en ekki gefin. Í miklum bardaga um handtökin fór Tommi eldsnöggt inn í Uchi mata sem var svo kraftmikið að Eiki flaug hátt upp í loft og sem betur fer fyrir hann náði Tommi ekki að stýra honum á bakið. Eiki snérist eða náði að snúa sér og lenti hann á maganum svo Tommi fékk ekkert fyrir kastið. Eftir þetta var Eiríkur mun varari um sig og opnaði sig ekki og vann viðureignina að lokum á ippon þegar hann komst í gólfið og hélt Tómasi í fastataki. Kristján Jónsson úr JR vann -81 kg flokkinn þar sem engin mótherji kom frá Ármanni í þeim flokki en Sveinbjörn Iura gat ekki keppt vegna meiðsla og varamaður mætti ekki.  Í -90 kg flokknum mætttust þeir Kristján Daðason úr JR og Yoshihiko Iura úr Ármanni. Þetta var einnig hörkuviðureign og mikil barátta um handtökin sem endaði með sigri Yoshihiko Iura þegar hann komst inn í fastatak og hélt Kristjáni. Þegar hér var komið við sögu var staðan jöfn, bæði lið höfðu tvo vinninga og 20 tæknistig svo næsta viðureign í +90 kg flokknum var hrein úrslitaviðureign. Þar mættust þeir félagar Þormóður Jónsson úr JR og Þorvaldur Blöndal úr Ármanni sem hafa ekki svo sjaldan keppt til úrslita í opnum flokkum. Þó svo að Þorvaldur sé léttari en Þormóður þá er hann ekkert auðveld bráð. Þorvaldur hefur oft unnið mun þyngri andstæðinga með klókindum og útsjónarsemi og var hann t.d norðurlandameistari bæði í -100 kg og opnum flokki í fyrra. Þormóður er hinsvegar komin með gríðarlega keppnisreynslu eftir undirbúning og þátttöku á tvennum Ólympíuleikum og er ekkert lamb að eiga við. Hann var yfirvegaður og glímdi skynsamlega. Hann gaf Þorvaldi aldrei neinn tíma til að ná handtökum og var alltaf ógnandi og henti honum að lokum með Osotogari  á ippon. JR ingar unnu því Bikarkeppnina í þriðja sinn með þremur vinningum gegn tveimur. Það voru sex félög sem sendu lið í keppnina og voru þau frá Júdódeild UMFN, Júdódeild Selfoss, Júdódeild KA, Júdódeild Þróttar og  síðan JR og Ármann sem að kepptu að lokum til úrslita.