Afmælismót JSÍ í yngri aldursflokkum þ.e. U13, U15, U18 og U21 árs fór fram í dag í húsakynnum JR og voru keppendur sextíu og þrír úr níu félögum. Í tölfræðinni yfir bestan árangur gerði yngsta Júdófélag landsis, Pardus á Blönduósi, sér lítið fyrir og skutu sér fram fyrir eldri og reyndari klúbba en þeir urðu í öðru sæti á eftir JR. Þessum árangri náðu þeir þrátt fyrir að hafa verið á löngu ferðalagi fyrir keppnina en þeir lögðu af stað frá Blönduósi kl. 5 í morgun og voru mættir til leiks kl. 9. Þetta var mjög skemmtilegt mót á að horfa og margar frábærar glímur og stundum óvænt úrslit. Elfar Davíðsson vann örugglega 66 kg flokkinn bæði í U18 og U21 árs með glæsilegum köstum, frábærri tækni og snerpu og fleiri mætti tiltaka eins og t.d. Árna Lund sem einnig vann sinn flokk örugglega. Ég held að á engan sé hallað að segja að maður mótsins eða sá sem kom mest á óvart hafi verið Ásþór Rúnarsson sem aðeins er 16 ára gamall en hann vann gullverðlaunin bæði U18 -90 kg þar sem hann keppti flokk upp fyrir sig og U21 -81 kg eftir alveg hörku spennandi og jafnar viðureignir gegn Grími Ívarssyni  og  Birni Lúkasi Haraldssyni og má segja að fyrirfram hafi ekki verið reiknað með því að hann ynni þessa flokka. Það voru einnig fjölmargar flottar viðureignir í öðrum aldursflokkum sem hægt væri að minnast á en læt þetta nægja að sinni. Hér eru úrslitin.