ISL_FARÞað var vel heppnuð æfingahelgin sem við héldum með frændum okkar Færeyingum núna um helgina. Með hverri æfingunni sem voru þrjár, fjölgaði þátttakendum og voru þegar mest var tæplega fjörtíu manns og í öllum þyngdarflokkum eða frá 55 kg og uppí 135 kg svo allir höfðu andstæðinga við hæfi. Þeir Yoshihiko Iura og Bjarni Friðriksson sáu um tækiæfingar og þeim til aðstoðar voru meðal annar þeir Víkingur Víkingsson, Sveinbjörn Iura og Jón Þór Þórarinsson svo einhverjir séu nefndir. Hver æfing stóð yfir í tvær klukkustundir og í fyrri hluta æfinganna var farið í gólfglímu tækni og síðan teknar 5-7 viðureignir og í seinnihluta var standandi tækni og síðan teknar 8-10 viðureignir. Þar sem þátttakan var svona mikil varð að tvískipta á gólfið (þyngri og léttari) og gekk það alveg áfallalaust fyrir sig. Glímdu nokkrir í bæði skiptin nokkrum sinnum og þar af leiðandi næstum allar viðureignirnar og var það vel gert hjá þeim. Að lokinni síðustu æfingu í dag hélt Dómaranefnd JSÍ, þeir Þórir Rúnarsson, Jón Óðinn Waage og Jón Kristinn Sigurðsson kynningu á nýjustu dómarareglunum og útskýrðu þær og svöruðu fyrirspurnum sem voru þó nokkrar og fóru menn vísari heim að kynningu lokinni.