Modi Glasgow 2015Um síðastliðna helgi kepptu þeir Þormóður Jónsson og Sveinbjörn Iura á European Judo Open í Glasgow. Þetta er eitt af mótunum í mótaröðinni sem gefur punkta á heimslistann og þar með möguleikana á að komast á Ólympíuleikana í Ríó á næsta ári. Sveinbjörn sem keppir í -81 kg flokki gat verið heppnari með dráttinn því hann lenti á einum öflugusta manni flokksins Tom Reed frá Bretlandi. Í byrjun leit Sveinbjörn vel út en skyndilega sópaði Tom fótunum undan Sveinbirni sem féll á hnén og Tom fylgdi vel eftir og komst í armlás og sigraði. Sveinbjörn fékk ekki uppreisnarglímu en Tom vann næstu þrjár viðureignir og komst í úrslitin en endaði í öðru sæti. Þormóður sem keppir í þungavigt mætti Theodor Spalding (GBR) í fyrstu viðureign sem hann vann á mótbragði og fékk wazaari fyrir. Í næstu viðureign mætti hann Matjaz Ceraj frá Slóveníu sem kom góðu bragði (Harai goshi) á Þormóð og sigraði. Matjaz hélt áfram og varð að lokum sigurvegari flokksins en Þormóður keppti um bronsverðlaunin gegn Andrew Melbourne (GBR) og sigraði hann örugglega með fastataki. Þessi verðlaun voru afar mikilvæg fyrir Þormóð sem nú var að keppa eftir nokkuð hlé vegna meiðsla sem hann hlaut í júní og missti því af nokkrum punktamótum fyrir vikið þar á meðal heimsmeistaramótinu í ágúst. Þessi árangur hækkar Þormóð um ein 45 sæti á heimslistanum eða úr því 141 í það 96 og  nálgast hann því óðfluga að vera inni á Ólympíuleikunum á næsta ári.