Í dag kepptu sex Íslendingar á Matsumae Cup. Í U18 -55 kg keppti Alexander Heiðarsson og voru átta keppendur í tveimur riðlum. Alexander vann eina viðureign en tapaði tveimur svo hann komst ekki upp úr riðli. Í U21 -81 kg flokki þar sem keppendur voru fjórtán kepptu þeir Ásþór Rúnarsson og Árni Lund. Ásþór vann fyrstu viðureign en tapaði í annari umferð gegn Kawabata frá Japan sem sigraði síðar um daginn flokkinn. Ási fékk uppreisnarglímu en tapaði henni og endaði í 9. sæti. Árni tapaði fyrstu viðureign gegn C. Hæstrup sem keppti síðar um gullið. Árni fékk því uppreisnarglímu og vann næstu tvær en tapaði gegn Aaron Miller sem tók bronsið en Árni endaði í sjöunda sæti. Úlfur Böðvarsson keppti í U21 -90 kg þar sem keppendur voru sex og keppt í tveimur riðlum. Úlfur tapaði einni og vann eina viðureign í riðlinum og komst upp úr honum og var þar með búinn að tryggja sér bronsverðlaunin og gat komist í úrslit en tapaði í undanúrslitum og endaði því í þriðja sæti. Grímur keppti í U21 -100 kg flokknum en þar var aðeins einn mótherji svo þeir þurftu að keppa minnst tvisvar saman og jafnvel þrisvar. Mótherji Gríms var ekki af lakara taginu en hann er silfurhafi frá Evrópumeistaramótinu 2016 í U18. Grímur varð því miður að lúta í lægra haldi í tvígang og endaði í öðru sæti. Gísli Vilborgarson var sá eini sem keppti í seniora flokki í dag en hann keppti í -73 kg flokki karla þar sem keppendur voru þrettán. Fyrst mætti hann Svía og sigraði hann á glæsilegu Taio-toshi kasti, ippon. Næst mætti hann Herman Hermansen (NOR) og var betri aðilinn í standandi viðureigninni en lenti í gólfglímu og Hermann gerði sér lítið fyrir og náði að koma Gísla í fastatak og vinna. Gísli fékk uppreisnarglímu en tapaði henni og endaði í níunda sæti. Á morgun keppa allir aftur og þá í karlaflokkum, nema Gísli sem hefur lokið keppni og Alexander sem keppir þá í U21 árs. Auk framangreindra keppa einnig eftirfarandi í karlaflokkunum á morgun en það eru þeir Breki Bernharðsson, Logi Haraldsson og Sveinbjörn Iura sem keppa allir í -81 kg flokki og Egill Blöndal og Ægir Valsson sem keppa í -90 kg flokki. Hér má fylgjast með framgani mótsins og sjá öll úrslit og hér er bein útsending frá mótinu en Logi á fyrstu viðureign á velli eitt og Úlfur stuttu seinna á velli tvö og síðan koma þeir koll af kolli.Mótið hefst kl. 8 í fyrramálið á okkar tíma.