Það gekk ekki nógu vel hjá okkar mönnum um helgina og í stuttu máli þá töpuðust allar viðureignirnar. Gísli byrjaði vel og var yfir í sinni viðureign með tvö wazaari og lítið eftir en mistekst bragð í lok glímunnar og fellur eiginlega á eigin bragði á ippon. Sveinbjörn hætti við keppni þar sem hann hefur verið að glíma við bakmeiðsli og ákvað á síðustu stundu að draga sig úr keppninni og einbeita sér að æfingabúðunum í vikunni. Egill var varla svipur hjá sjón og fann sig ekki í sinni glímu og tapaði henni, Logi átti við snúinn andstæðing sem vann hann að lokum þar sem Logi fékk þrjú refsistig og Árni Lund átti ágætis tilraun í sinni viðureign og pikkaði sinn mótherja upp og ætlaði að skella honum en þá gaf hnéð sig (ekkert alvarlegt) og Árni fell á bakið og andstæðingurinn ofan á hann og hélt honum. Þó ekki hafi gengið vel að þessu sinni fer þetta í reynsluboxið hjá strákunum og það gengur bara betur næst.