Brot á tilkynningaskyldu til Lyfjaráðs vegna læknalyfja en ekki lyfjamisnotkun

Þormóður Árni Jónsson féll á lyfjaprófi sem tekið var í vor.
Málið var rekið fyrir dómstól ÍSÍ í sumar og er aðdragandinn svona í stuttu máli:
Þormóður missti af ÍM í vor eins og flestir vita þar sem hann var kominn með blóðeitrun í annan fótinn og þurfti að fara á bráðamóttöku LSH og var þá kominn með 39 stiga hita. Þar var honum strax gefið sýklalyf í æð og einnig látinn hafa pillu (Probenecid) sem alla jafnan er notað með sýklalyfjum til að auka virkni þeirra. Þessi pilla er á bannlista WADA og láðist honum að kanna hvaða lyf honum var gefið og þá sækja um undanþágu til lyfjaráðs. Aðilar eru sammála því að ekki hafi verið um ásetning að ræða og þá lyfjamisnotkunn heldur hafi þarna verið um vanrækslu að ræða. Þormóður fékk lágmarksdóm og var dæmdur til 3ja mánaða óhlutgengis til þátttöku frá 19. júní til 19. sept. 2017 að telja.

Yfirlýsing frá
Þormóði Árna Jónssyni (ÞÁJ)

22. maí síðastliðinn var undirritaður boðaður í lyfjaeftirlit, utan keppni. Nokkrum dögum áður hafði ég gengist undir nokkuð umfangsmikla sýklalyfjameðferð á Landspítala Háskólasjúkrahúsi (LSH) vegna blóðeitrunar í fæti sem var orðin það ágeng að réttast þótti að leggja mig inn á bráðadeild og gefa mér sýklalyf beint í æð til þess að slá á umtalsverðan sótthita. Á LSH óskaði undirritaður eftir því við innlögn að tillit yrði tekið til þess við lyfjagjöf ef til hennar þyrfti að koma að ég væri afreksíþróttamaður í keppni.

Á bráðadeildinni var mér gefið sýklalyf í æð og tafla af lyfinu Probenecid sem gjarnan er notað af læknum til þess að auka virkni sýklalyfja en lyf þetta er á bannlista WADA. Ég vegna veikinda minna og vanlíðunar vanrækti þá skyldu mína að fá upplýsingar um lyfið áður en það var gefið. Að sama skapi vanrækti ég þá skyldu mína að tilkynna um inntöku þessa lyfs í neyðartilfelli til lyfjanefndar ÍSÍ. Slævður af veikindum mínum og sótthita taldi ég að beiðni mín við innlögn á bráðadeild og skráningarkerfi spítalans tæki af mér þær skyldur að tilkynna sérstaklega um atvik sem þetta. Það voru mistök sem ég vill biðja alla viðkomandi afsökunar á.

Mér er fullljóst að sem afreksíþróttamaður sem reglulega fer til keppni á erlendri grundu fyrir hönd lands og þjóðar, að ég sjálfur ber fulla ábyrgð á því sem ég set ofan í mig, hvort heldur sem um er að ræða fæðu eða lyf sem ávísað er af læknum.

Í erfiðum veikindum sem ég hafði miklar áhyggjur af, gerðist ég sekur um að sýna ekki fyllstu árvekni hvað þetta varðar og vill ég biðja alla viðkomandi afsökunar á þessari yfirsjón minni.

Að lokum vill ég taka fram að ég er einlægur stuðningsmaður lyfjaeftirlitsins og tel starf þeirra mjög mikilvægt í heimi afreksíþrótta. Ég viðurkenni ábyrgð mína og yfirsjón og mun ekki áfrýja þessu máli til æðra dómsstigs heldur hlíta þessum úrskurði.

Þormóður Árni Jónsson (Sign)

 

Yfirlýsing frá
Júdósambandi Íslands. (JSÍ)

Formaður Júdósamband Íslands hefur ítarlega fylgst málarekstri þessum fyrir Dómstól Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands frá því að málið kom upp. Þormóður Árni Jónsson hefur í hvívetna komið hreint og beint fram í þessu máli og lagt fram læknabréf frá bráðadeild LSH þar sem vitnisburður hans um veikindin og meðferð eru staðfest.

Í málflutningi Lyfjaráðs fyrir Dómstól Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands kemur fram að ráðið telur að ÞÁJ hafi sagt satt og rétt frá um málsatvik og þar sem lyfið er ekki árangursbætandi sé hér fyrst og fremst um vanrækslu á skyldum afreksíþróttamanns að ræða.

Dómstóllinn gerir ekki athugasemdir við þá ákvörðun lækna að gefa Þormóði þetta lyf á bráðamóttökunni en telur að honum hafi borið skylda til þess að kanna hvort lyfið væri á bannlista WADA.

Þormóður hefur viðurkennt yfirsjón sína og ákveðið að áfrýja ekki niðurstöðu dómsins. Júdósambandið styður þá ákvörðun hans. Júdósambandið telur ekki ástæðu til þess að aðhafast frekar í þessu máli sem augljóslega flokkast undir minniháttar yfirsjón í erfiðum aðstæðum bráðra veikinda.

Júdósamband Íslands mun því hér eftir sem hingað til styðja við og ýta undir keppnisferil þessa glæsilega afreksíþróttamanns sem svo glæsilega hefur aukið hróður landsins á afreksíþróttasviðinu.

F.h. stjórnar Júdósambands Íslands,
Jóhann Másson (sign)
formaður.