Það voru 299 keppendur frá 41 þjóð sem tóku þátt í Prag Open 2018 nú um helgina og voru keppendur frá Íslandi fimm en þeir Logi Haraldsson -81 kg flokki og Þormóður Jónsson +100 kg flokki komust báðir í aðra umferð en aðrir unnu ekki viðureign. Logi Haraldsson átti fyrstu glímuna í dag og sigraði Salvatore D Arco frá Ítalíu með vel útfærðu bragði í gólfglímunni en Logi var undir og lítill tími til stefnu en Ítalinn hafði skorað wazaari. Þegar um tíu sekúndur voru eftir af viðureigninni plataði Logi Ítalann sem hélt sig vera í öruggri stöðu í gólfglímunni en Logi snéri honum á bakið og komst í fastatak þegar um ein sekúnda var eftir og hélt honum þar föstum. Þarna sást það enn og aftur að glíman er ekki búin fyrr en bjallan glymur og allt getur gerst fram að því. Í annari glímu mætti hann Pólverjanum Damian Szwarnowiecki sem var efstur á heimslistanum í 81 kg flokknum í dag. Logi barðist vel og var ekkert síðri aðilinn framan af en hann gleymdi sér eitt augnablik og Pólverjinn náði góðu taki á Loga komst í gott bragð (Sumi gaeshi) og sigraði örugglega á ippon og Logi þar með fallin úr keppni. Þormóður Jónsson sigraði örugglega Artyom Bagdasarov frá UZB á Ippon með Uchimata sukashi. Hann mæti síðan Frakkanum Messie Katanga, brons verðlaunahafa frá HM juniora 2015. Messie sem er mikið þyngri en Þormóður náði að stýra glímunni svo Þormóður komst aldrei inn í hana og tapaði hann á þremur shido og féll þar með úr keppni eins og Logi. Árni Lund (-81 kg) sem er yngstur okkar keppenda og með minnstu keppnisreynsluna stóð sig mjög vel þrátt fyrir að hafa tapað fyrir Christ Gengoul frá Frakklandi en það var eftir fullan glímutíma. Hann var síst lakari aðilinn og honum var ekkert ógnað af Frakkanum. Árni sótti stíft en í einni sókninni náði Christ mótbragði og skoraði wazaari og það skor réði úrslitum. Egill Blöndal glímdi líka mjög vel en var full fljótfær og seildist of langt í handtökunum sem Almas Kkrashev (KAZ) nýtti sér eldsnöggt og skoraði ippon með Sasae Tsuri Komi Ashi.  Breki Bernharðsson sem einnig keppti í -81 kg flokknum eins og Logi og Árni átti ekki góðan dag en hann tapaði fyrir Oleksandr Koshliak (UKR) sem komst í þriðju umferð. Þrátt fyrir að komast ekki lengra en í fyrstu og aðra umferð þá var þetta góður skóli fyrir þá og hluti af undirbúningi fyrir komandi mót eins og NM og EM. Á morgun fara þeir svo í OTC æfingabúðirnar í Nymburk og verða þar fram eftir vikunni þar sem þeir munu æfa með flest öllum þátttakendunum frá mótinu um helgina. Hér eru úrslin.

Hér er hluti keppenda á Prag Open. Sveinbjörn, Breki, Logi og Þormóður.