Þeir félagar Þormóður, Logi og Egill stóðu sig með sóma á Evrópumeistaramótinu sl. helgi. Það var vitað að andstæðingarnir yrðu öflugir og líkurnar væru ekki okkar megin. Logi keppti fyrstur og mætti mætir Sami Chouchi(BEL) en hann er í 49 sæti heimslistans. Logi byrjaði vel og var að því er virtist sterkari í tökunum og glíman leit vel út fyrir hann en eitt augnablik gleymdi Logi sér og Belginn var eldsnöggur að átta sig á því og nýtti sér það frábærlega og vann hann Loga á hengingu sem Logi þekkir og notar mikið sjálfur svo það var frekar fúlt að tapa þannig. En ljósi punkturinn var þó sá að Belginn gerði sér lítið fyrir og fór alla leið í úrslitin og endaði með silfrið svo þetta var enginn meðalmaður sem Logi tapaði fyrir. Hér er glíman hans Loga. Egill keppti næstur og mætti  David Klammert (CZE) sem er í 19 sæti heimslistans og gríða sterkur judomaður. Þetta var hörkuglíma sem Egill tapaði að lokum eftir fullan glímutíma en gat alveg eins endað með sigri Egils sem glímdi mjög vel og barðist til síðustu sekúndu. David Klammert tapaði næstu viðureign gegn silfurhafanum  Nemanja Majdov frá Serbíu  Hér er glíman hans Egils. Þormóður mætti Guram Tushishvili (GEO) sem er í öðru sæti heimslistan og margfaldur verðlaunahafi á stærstu mótum heims. Þormóður byrjaði mjög vel og gaf Guram engin færi á sér og barðist vel í tökunum og þegar um 45 sekúndur voru liðnar komst Þormóður í gott bragð og gerði sér lítið fyrir og kastaði Guram á bakið nokkuð sem sést ekki á hverjum degi og fékk wazaari fyrir kastið og munaði ekki miklu að það hefði verið ippon kast eða þá að Þormóður hefði geta fylgt því eftir í fastatak en því miður fór það ekki svo. Glíman hélt áfram og nú var Guram ekki skemmt reiknaði alls ekki með þessu og breytti um stíl og tók önnur tök og náði eldsnöggu og fallegu seoi nage og fékk sanngjarnt ippon fyrir það. Hér er glíman hans Þormóðs.