Á Opna Sænska í dag í aldursflokki U21 árs sigraði Úlfur Böðvarsson 90 kg flokkinn og Árni Lund varð þriðji í -81 kg flokki. Þetta var öruggur sigur hjá Úlfi en hann lagði alla sína andstæðinga á ippon og var það vel gert því hann hafði meitt sig á öxl tveimur dögum fyrir mót og var óvíst hvort hann gæti keppt en hann ákvað að láta slag standa. Auk þess að vinna gullverðlaunin fékk Úlfur sérstakan bikar fyrir ippon kast dagsins.

Árni tapaði hinsvegar fyrstu viðureign sem hann var langt kominn með að vinna þar sem andstæðingur hans var kominn með tvö refsistig og hefði tapað á því þriðja. Í einni sókn sinni gerði hann mistök og var kastað á mótbragði og þar með var möguleiki á sigri úr sögunni. Hann fékk uppreisnarglímu og gerði þá engin mistök og vann næstu þrjár glímur öruggt og allar á ippon og tók bronsið.

Grímur Ívarsson sem keppti sama flokki og Úlfur barðist um bronsverðlaunin og var ekki langt frá því að innbyrða þau en hann var yfir á stigum og ekki mikið eftir þegar andstæðingi hans tókst að koma góðu bragði á hann og skoraði ippon og þar með var glímunnni lokið og Grímur endaði því í 5. sæti. Oddur Kjartansson einnig í U21 keppti í -73 kg flokki þar sem keppendur voru nítján og tapaði hann fyrstu glímu en þar sem mótherji hans komst áfram (brons) fékk Oddur uppreisnarglímu en tapaði henni líka og var úr leik.

Strákarnir í U18 þeir Hákon Garðarsson og Kjartan Hreiðarsson eru aðeins 15 ára og því á yngsta ári í flokknum. Að sögn Hermann Unnarssonar landsliðasþjálfara sem var með hópnum þá börðust þeir vel en það dugði þó ekki til því þó svo að þeir séu útsjónarsamir judomenn og í góðu formi þá munaði of miklu á líkamlegum styrk þeirra og andstæðinga þeirra sem voru allt að tveimur árum eldri og töpuðu þeir sínum glímum og fengu ekki uppreisn.