Síðasta mót ársins erlendis hjá okkar keppendum var þátttaka þeirra Breka Bernhardssonar (-73 kg) og Sveinbjörns Iura (-81 kg) á Asian Judo Open Hong Kong 2018. Breki sem keppti á laugardeginum var þarna líklegast að keppa á sínu sterkasta móti til þessa og byrjaði mjög vel en hann mætti heimamanninum Ho Ting Lee (HKG) sem hann sigraði örugglega á ippon. Næst mætti hann Keise Nakano (PHI) en varð að lúta í lægra haldi fyrir honum og féll úr keppni í sextán manna úrslitum. Þetta var vel gert hjá Breka og fékk hann sextán punkta og er kominn á heimslistann í -73 kg flokknum.  Sveinbjörn keppti á sunnudaginn og mætti Gwanghui Lee (KOR). Sveinbjörn tapaði þeirri viðureign og var þar með fallinn úr keppni en
Gwanghui fór alla leið og stóð uppi sem sigurvegari í flokknum í lok dags. Það er ótrúlegt en satt en þetta var í þriðja sinn í röð að Sveinbjörn fellur úr keppni fyrir þeim sem sigrar flokkinn síðar um daginn, það skeði á HM í Baku í sept, á Grand Slam Osaka fyrir tveimur vikum og svo núna. Það fer væntanlega að verða áhugavert fyrir einhverja að fá að glíma við Sveinbjörn á komandi mótum og vonast eftir sigri því þá er gullið nánast öruggt fyrir viðkomandi. Nú er komið keppnishlé fram í janúar en þá hefst mikil törn sem lýkur ekki fyrr en í maí 2020 en þá er öllum mótum lokið sem gefa punkta á heimslistann sem ákvarðar hvort keppandi náði að skora nógu hátt til að öðlast þátttökurétt á Ólympíuleikunum í Japan 2020.