Um helgina fór fjölmennur hópur JR inga, (keppendur, foreldrar og þjálfarar) til Hollands þar sem þeir tóku þátt í móti í Open Twents Judo Championship sem haldið í borginni Enschede. Það er orðið eitt fjölmennasta mót sem haldið er í Hollandi með 1100 þátttakendum frá sex þjóðum og voru 400 í aldursflokknum U17.  Allir bestu keppendur Hollands voru á meðal þáttakenda en þetta er úrtökumót fyrir þá til þess að komast í landslið og fá rétt til þess að keppa á Europen Cup á næsta ári.  Okkar keppendur stóðu sig öll vel eða svipað og búast mátti við miðað við styrkleika mótsins en samanborið við td. NM unglinga eða SWOP juniora þá er þetta í allt öðrum klassa og er kanski nær EYOF að styrk.

Hluti 27 manna hóps sem fór til Hollands

Fyrri daginn var keppt í U17 og í stuttu máli þá komust okkar keppendur ekki áfram en fengu þó öll  tvær viðureignir sem því miður töpuðust. Flokkarnir voru misfjölmennir en flestir voru þó í -66 kg flokknum eða 46 keppendur en Ísak Freyr Hermannsson keppti í þeim flokki en hann tapaði  í  sínum viðureignum eftir harða keppni. Kjartan Logi Hreiðarsson -73 kg tapaði fyrstu viðureign á þremur shido gegn Hollendingi sem varð í öðru sæti síðar um daginn og Andri Fannar Ævarsson -81 kg tapaði einnig fyrir silfur verðlaunahafa í fyrstu viðureign eftir hörku glímu. Skarphéðinn Hjaltason sem er 14 ára gamall og keppti í -81 kg flokknum er á yngsta ári í aldursflokknum U17  (14-16 ára). Hann var ekki langt frá því að vinna sína fyrstu viðureign þegar hann var kominn með andstæðing sinn í shime-waza en sá slapp með skrekkinn.  Hákon Garðarsson-73 kg tapaði einnig sínum viðureignum eftir hörku átök sem og Helga Aradóttir í -70 kg flokknum en hún tapaði fyrir stúlku í fyrstu viðureign sem vann bronsið síðar um daginn.

Upphitun á Open Twents 2018 

Seinni daginn var keppt í yngri aldursflokkum og voru keppendur 700 og  náði Helena Bjarnadóttir bestum árangri en hún sigraði í aldursflokknum U12 ára í +48 kg flokknum og fékk því gullverðlaunin. Hún glímdi mjög vel og sigraði örugglega. Matas Naudziunas vann einnig til verðlauna en hann fékk bronsið í sama aldursflokki í +57 kg. Mikael Máni Ísaksson glímdi einnig mjög vel í dag en hann vann nokkra glímur og keppti um bronsverðlaunin í U12 -42 kg flokknum og fór viðureign hans í dómaraúrskurð sem féll honum í óhag. Emma Tekla Thueringer og Aðalsteinn Karl Björnsson unnu fyrstu viðureign en töpuðu næstu tveimur og komust ekki á verðlaunapall.  Elías Funi Þormóðsson, Jónas Björn Guðmundsson og Daron Karl Hancock töpuðu sínum viðureignum og það gerði reyndar Skarphéðinn Hjaltason einnig en hann keppti í U15 +66 kg flokknum.  Hann fékk tvær glímur og voru andstæðingar hans ekki af verri endanum því þeir urðu í öðru og þriðja sæti í flokknum síðar um daginn svo hann hefði getað verið heppnari með dráttinn.