Sveinbjörn Iura hefur nú lokið keppni á HM í Budapest. Alls voru 77 keppendur skráðir til leiks í -81 kg flokknum, en Sveinbjörn drógst gegn Lee Sungho. Lee stýrði gripabaráttunni og hóf strax að sækja að Sveinbirni. Þar sem Sveinbirni gekk illa að ná tökum á Lee fékk hann refsistig fyrir sóknarleysi. Um miðbik glímunar skoraði Lee ippon með vel útfærðu drop seonage. Þar með var Sveinbjörn úr leik. Belginn Matthias Casse varð heimsmeistari í -81 kg flokknum. Casse sigraði Tato Grigalashvili frá Georgíu í úrslitum.

Úrslit HM 2021

Viðureign Sveinbjörns Iura og Lee Sungho

Sveinbjörn hefur unnið hörðum höndum að því síðastliðin tvö ár að öðlast þátttökurétt á Ólympíuleikann í Tókýó. Hann hefur ferðast um allan heim og keppt í heimsbikarmótaröð IJF og öðrum mótum á heimsmælikvarða. Á heimsbikarmóti í byrjun apríl smitaðist Sveinbjörn af Covid-19 og óhætt að segja að veikindin hafi sett strik í reikninginn þar sem Sveinbjörn missti af þremur mikilvægum úrtökumótum. HM í Búdapest í gær var fyrsta mót Sveinbjörns eftir veikindin.

Heimsmeistaramótið í Búdapest var síðasta úrtökumótið fyrir Ólympíuleikanna í Tókýó 2021og því er það ljóst að Sveinbjörn verður ekki meðal keppenda í Tókýó.