Select your Top Menu from wp menus

Afreksstefna JSÍ 2015-2017

Afreksstefna JSÍ 2015-2017 (pdf snið)

Markmið

Íslenskir júdómenn hafa í gegnum tíðina tekið þátt öllum sterkustu mótum heims og oft keppt til verðlauna með góðum árangri. Þeirra á meðal eru European Cup mótin, Evrópumeistaramót (EM) og Ólympíuleikar og á Heimsmeistaramóti (HM) hafa þeir oftar en einu sinni orðið í sjöunda sæti.
Íslenskir júdómenn tóku í fyrsta skipti þátt í Ólympíuleikum 1976. Síðan þá hafa Íslendingar átt keppendur í júdó á öllum leikunum nema í Sidney 2000 og Aþenu 2004. Keppendur okkar hafa komist í aðra og þriðju umferð og bestum árangri fram að þessu eru bronsverðlaun í Los Angeles 1984.

 Það er markmið Júdósambands Íslands (JSÍ) að bæta þann árangur sem náðst hefur bestur áður.

Það er markmið JSÍ að íslenskur júdómaður vinni til verðlauna á Ólympíuleikum framtíðarinnar og að það verði ekki seinna en 2020.

Það er markmið JSÍ að eiga tvo til þrjá keppendur á meðal átta efstu á Senior Europen Cup 2015-2016 og að íslenskur júdómaður keppi til verðlauna á HM 2016.

Það er markmið JSÍ að efla þátttöku íslenskra júdókvenna á alþjóðavettvangi.  JSÍ setur það markmið að íslenskar júdókonur verði í verðlaunasætum í þremur flokkum á Smáþjóðaleikunum 2015 og 2017.

Það er markmið JSÍ að eiga keppendur á Evrópumóti juniora (U21) á hverju ári þess tímabils er hér um ræðir og þeir komist í aðra umferð hið minnsta. Til þess að undirbúa sig sem best fyrir EM og öðlast nauðsynlega keppnisreynslu þurfa þeir að sækja þau stórmót erlendis sem í boði eru fyrir þá.

Það er markmið JSÍ að efla þátttöku unglinga (cadett, U18) á alþjóðavettvangi í júdó. JSÍ setur það markmið að eiga tvo til þrjá keppendur á Ólympíuleikum æskunnar (EYOF) hverju sinni og þeir komist í aðra umferð hið minnsta.

Það er markmið JSÍ að efla menntun júdóþjálfara og að fyrir árslok 2017 verði meirihluti þjálfara búnir að ljúka þjálfaramenntun ÍSÍ og sérgreinhluta JSÍ.

Markmið JSÍ eru háð fjárhag hverju sinni og hvernig til tekst með fjármögnun. Kostnaður er mikill og þarf því að sníða sér stakk eftir vexti.

 

Landslið – Landsliðsval – Verkefni

Stjórn JSÍ starfrækir eftirtalin landslið:

  • A-landslið karla og kvenna: Eiga erindi á Senior European Cup og sterkari.
  • B-landslið karla og kvenna: Eiga erindi á B-mót, t.d. NM og Matsumae Cup.
  • Landslið pilta og stúlkna U21 (15-20 ára)
  • Landslið drengja og stúlkna U18 (15-17 ára)

Stjórn JSÍ velur þjálfara til umsjónar með hverju landsliði.  Landsliðsþjálfarar skulu vinna náið með þjálfurum þeirra félaga sem eiga menn í landsliðum á hverjum tíma. Við val í landslið er fryrst og fremst farið eftir punktakefi JSÍ, tekið mið af ástundun og líkamlegu ástandi judoka og hvernig þrek og aflpróf hafa komið út.

 

Verkefni A-landsliðsmanna er að vinna sér þátttökurétt á Ólympíuleikum hverju sinni.  Um þáttöku á Ólympíuleikum gilda alþjóðlegar reglur sem eru oft breytilegar milli leika en þær þarf að uppfylla til að öðlast þátttökurétt.
A-landsliðsmenn skulu sækja mót og æfingabúðir erlendis samkvæmt ákvörðun landsliðsþjálfara.  Sú krafa er gerð á A-landsliðsmenn að þeir taki þátt í öllum mótum innanlands sem þeim er möguleg þátttaka í og líkamlegt ástand og geta þeirra sé í samræmi við kröfur landsliðsþjálfara.  Kostnaður við A-landslið greiðist af JSÍ.
Verkefni B-landsliðsmanna er að vinna sér sæti sem A-landsliðsmaður.  Til þess að koma til greina sem A-landsliðsmaður þarf að vinna til verðlauna á B-móti og hafa unnið þar minnst tvær viðureignir í þyngdarflokki þar sem eru ekki færri en fimm keppendur. Innan B-landsliðs eru einnig þeir sem ekki hafa sett markmið á OL eða HM en hafa samt í hyggju að keppa á alþjóðlegum vettvangi og eru hæfir til þess að mati landsliðsþjálfara. Verkefni B-landsliðs er að taka þátt í Smáþjóðaleikum, Norðurlandamótum, Matsumae Cup auk annarra B-móta sem skulu ákveðin í samráði við þau félög sem eiga þátttakendur í landsliði.  Fjármögnun við starf B-landsliðs skal JSÍ standa að í samstarfi við félögin og iðkendur sjálfa.

 

Verkefni U21 árs landsliðs er þátttaka í tveimur erlendum juniora mótum á ári hið minnsta auk æfingabúða ef því verður við komið og þátttaka á Evrópumóti U21árs. Til að öðlast þátttökurétt á EM þarf keppandi að vinna til verðlauna á junioramóti erlendis og hafa unnið þar minnst tvær viðureignir í þyngdarflokki þar sem eru ekki færri en fimm keppendur. Fjármögnun við starf  U21 árs landsliðs skal JSÍ standa að í samstarfi við félögin og iðkendur sjálfa.

 

Verkefni U18 ára landsliðs er þátttaka í einum erlendum viðburði árlega hið minnsta, sem skal ákveðinn í samráði við þau félög sem eiga þátttakendur í þessu landsliði og lokamarkmið er þátttaka á Ólympíuleikum æskunnar (EYOF). Til að öðlast þátttökurétt á EYOF þarf keppandi að vinna til verðlauna U18 móti erlendis og hafa unnið þar minnst tvær viðureignir í þyngdarflokki þar sem eru ekki færri en fimm keppendur.  Fjármögnun við starf  U18 ára landsliðs skal JSÍ standa að í samstarfi við félögin og iðkendur sjálfa.