Glæsileg frammistaða

HPIM4850.jpgÞormóður Jónsson úr JR keppti sl. föstudag í þungavigt á Ólympíuleikunum í Peking og stóð sig frábærlega. Í flokknum voru 34 keppendur og sátu því 30 hjá í fyrstu umferð og því fjórir sem kepptu um tvö sæti sem laus voru í annari umferð eða 32 manna útslætti. Í annari umferð keppti Móði við Puerto Rico búa og vann hann með glæsilegu ippon kasti þegar um ein og hálf mínúta var eftir en þá hafði PUR leitt glímuna með koka. Í þriðju umferð glímdi hann gegn 140kg Írana og líklega um 10 cm hærri en Móði. Þetta var algjört tröll og virtist Móði í minna lagi í samanburði við hann. Þessi glíma var mjög vel glímd af Móða og reyndi hann að hreyfa Íranann sem mest þannig að hann næði ekki að nýta sér þyngdarmuninn og stilla honum upp og gekk það vel. Móði átti ágæta sóknir með seionage, kataguruma og morotegari og fljótlega leiddi hann glímuna með koka.  Þegar um fjörtíu sekúndur voru eftir og allt leit út fyrir að Móða tækist að halda forskoti sínu sem hann hafði haft í um fjórar mínútur náði Íraninn því miður, góðum handtökum, beygði Þormóð niður og fór í vinstra osoto-gari og skoraði ippon með fallegu kasti.  Íraninn tapaði næstu glímu og fékk Móði því ekki uppreisn. IRI hafnaði í 5. sæti og hafði þá lagt fjóra andstæðinga og alla á ippon og þar á meðal Rússann Tmenov sem búist var við að myndi keppa um gullverðlaunin. Af öllum þeim andstæðingum sem að IRI vann stóð Móði lengst allra því aðrir töpuðu eftir tvær til þrjár og hálfa mínútu. Þetta var frábær frammistaða hjá Þormóði og vel útfærð glíma og var eftir því tekið hve litlu munaði að honum tækist að sigra og komast í átta manna úrslit. Það voru allnokkrir þjálfarar sem hrósuðu frammistöðu Þormóðs og höfðu sumir á orði að með sama áframhaldi væri hann líklegur til að komast á pall að fjórum árum liðnum, hann væri ekki lengur „no name“ það yrði að reikna með honum. Þormóður er sá þrettándi í röðinni til að keppa í júdó fyrir hönd Íslands frá því að við tókum fyrst  þátt í Ólympíuleikum árið 1976.

Hér neðar eru tenglar á glímurnar hans Þormóðs og einnig nokkrar myndir úr ferðinni.

Glíma 1:http://uk.youtube.com/watch?v=RMy0NXSUaTs

Glíma 2:http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4398019/17

Tengill á allar glímur:http://beijing.ijf.org/results.html