DSC08356Uppskeruhátíð JSÍ fyrir árið 2015 var haldin sl. laugardag. Dagskráin hófst á því að minnast látins félaga en Vignir Grétar Stefánsson úr Júdódeild Ármanns varð bráðkvaddur þann 16. desember sl. Hann var einn af bestu judomönnum landsins, með frábæra tækni og var sérstaklega gaman að fylgjast með hans viðureignum því þær enduðu oftast á fallegu og hreinu ippon kasti. Vignir var margfaldur Íslandsmeistari, hafði unnið til gull og silfur verðlauna á Norðurlandamóti og til fjölda verðlauna á Smáþjóðaleikunum svo eitthvað sé nefnt. Hans verður sárt saknað, blessuð sé minning hans.

Næst á dagskrá var veiting viðurkenninga fyrir störf í þágu júdó, veitt viðurkenningarskjöl fyrir dan gráðnir, efnilegasti júdómaðurinn U21 árs var valinn og síðast en ekki síst tilkynnt um val á júdókonu og manni ársins.

Á ársþingi JSÍ 2014 var  heiðursformaður JSÍ  kosinn í fyrsta skipti. Þrír voru tilnefndir og allir einróma samþykktir en það voru þeir Eysteinn Þorvaldsson, Magnús Ólafsson og Michal Vachun og á ársþingi JSÍ 2015 var Sigurður Helgi Jóhannsson kosinn heiðursformaður.  Á uppskeruhátíð JSÍ 2014 fékk Eysteinn Þorvaldsson afhenta viðurkenningu (stuðlaberg með merki JSÍ) því til staðfestingar en Magnús Ólafsson og Michal Vachun áttu ekki heimagengt. Magnús Ólafsson fékk hinsvegar sína viðurkenningu afhenta núna eins og sjá má á meðfylgjandi myndum en Sigurður Helgi Jóhannsson og Michal Vachun voru fjarverandi og munu fá sínar viðurkenningar síðar.

Björn Halldórsson (JG) og Jóhannes Haraldsson (UMFG) voru gráðaðir upp í 5. dan og Jóhann Másson (JR) í 2. dan. Frá uppskeruhátíðinni 2014 bættust þrír aðilar við svartbeltalistann en Björn Lúkas Haraldsson (UMFG) tók 1. dan í lok ársins 2014 og þeir Ásþór Loki Rúnarsson og Logi Haraldsson báðir úr JR tóku gráðuna 1. dan í ár.

Veitt voru þrenn bronsmerki fyrir störf í þágu júdó og voru það þeir Adam Brands Þórarinsson (Draupni) og Gísli Vilborgarson (JG) sem hlutu þau ásamt Benedikt Guðmundsyni (JR). Adam og Gísla þarf varla að kynna en þeir hafa ekki bara verið fremstir í flokki félaga sinna í keppni heldur eru þeir einnig á fullu í félagsstörfum og þjálfun og alltaf verið fyrstu menn til að aðstoða á mótum JSÍ auk þess að keppa. Benedikt Guðmundsson þekkja hinsvegar færri innan JSÍ hreyfingarinnar . Hann á dreng sem æfir júdó og hefur fylgt honum á æfingar í mörg ár. Benedikt hefur verið verið sambandinu afar hjálpsamur við öflum styrkja og nánast séð um alla fjáröflun fyrir RIG mótið sl. tvö ár.

Tvenn gullmerki voru einnig veitt fyrir áratuga óeigingjörn störf fyrir JSÍ og voru það þeir Jón Hlíðar Guðjónsson og Runólfur Gunnlaugsson báðir úr JR sem að þau hlutu.

Efnilegasti judomaður ársins U21 árs var valinn Grímur Ívarsson (UMFS) og judomenn ársins eru þau Þormóður Jónsson og Hjördís Erna Ólafsdóttir bæði úr JR.