Það gekk ekki alveg nógu vel hjá okkar mönnum á Junior European Cup í Paks um helgina. Úlfur átti fyrstu viðureign gegn Denis Turac frá Slovakíu og tapaði hann þeirri glímu eftir stutta viðureign er honum var kastað með bear hug sem wazaari var gefið fyrir og Denis komst síðan beint í fastatak í framhaldi af því. Grímur mætti Sebastian Schneider frá Austurríki og leit glíman ágætlega út í fyrstu og munaði ekki miklu að Grímur kæmist í fastatak eftir misheppnaða sókn hjá Sebastian. Í upphafi sóknar stuttu seinna kom Sebastina Grími á óvart með vel útfærðu Kosoto gake og skoraði fallegt ippon. Grímur fékk uppreisnarglímu og mætti Darko Brasnjovic frá Serbíu. Grímur var full rólegur og var kominn með tvo shido eftir rúma mínútu og varð því að skerpa sóknina og gerði það en það var hinsvegar serbinn sem átti hættulegri sóknir og náði hann að skora wazaari þegar um ein og hálf mínúta var eftir og Grímur fék sitt þriðja shido stuttu seinna og tapaði þar með glímunni. Alexander mætti Theau Giallurachis frá Frakklandi og var það hörkuglíma. Hart var barist um tökin og báðir reyndu seionage brögð en eftir umþað bil eina mínútu komst Theau inn í Sumi gaeshi og  skoraði wazaari og fylgdi eftir í gólfinu en Alexander varðist því. Ekki löngu seinna reyndi Theo aftur Seoi nage sem tókst ekki en hann fylgdi því vel eftir og við tók hörkugólfglíma sem endaði með því að hann komst í fastatak og vann glímuna á því og Alexander var þar með úr leik. Björn Sigurðarson dæmdi á mótinu og dæmdi hann meðal annars bronsglímuna í -66 kg flokki en það er ekki sjálfgefið að fá að dæma verðlaunaglímur svo Björn hefur verið að standa sig vel í dómgæslunni. Björn mun dæma á Junior European Cup í Prag eftir viku á og reyna þar að ná sér í alþjóðleg dómararéttindi en samhliða mótinu verður haldið dómarapróf sem hann verður þátttakandi í og er því reynslan af dómgæslunni í Paks gott veganesti fyrir hann. Björn heldur heim á morgun en við taka við æfingabúðir í Paks hjá strákunum fram til 19. júlí en þá halda þeir til Prag og keppa þar næsta laugardag og sunnudag og mun Hermann Unnarsson landsliðsþjálfari verða þeim til aðstoðar.  Hér er hægt að sjá allar glímurnar á mótinu í Paks bæði í dag og í gær. Úlfur og Grímur kepptu á velli 2 fyrri daginn (Úlfur 2:00) (Grímur 33:00 og 2:38:37) en Alexander á velli 3 seinni daginn (1:33:00) og bronsglíman sem Björn dæmdi er á velli 2 (7:11:30) seinni daginn.
Fyrri dagur: Völlur 1.  Völlur 2. Völlur 3. Völlur 4. og seinni dagur:  Völlur 1.  Völlur 2. Völlur 3. Völlur 4.