Það gekk ekki nógu vel hjá okkur fyrri dagin á Matsumae Cup en við unnum aðeins fjórar viðureignir af nítján. Í senioraflokki í -60 kg kepptu þeir Alexander Heiðarsson og Dofri Bragason og var keppt í tveimur fjögurra manna riðlum. Hvorugur komst upp úr riðli en Alexander (5-6 sæti) vann eina viðureign á ippon með fallegu uchimata kasti og hafði ekki verið langt frá því að sigra fyrstu viðureign sem hann hafði leitt megnið af glímutímanum þegar hann tapaði. Breki Bernhardsson -73 kg byrjaði vel og sigraði á ippon fyrstu viðureign með glæsilegu sópi. Hann tapar næstu en fær uppreisn og tapar henni líka og er þar með úr leik. Árni Lund og Hrafn Arnarsson kepptu í -81 kg flokki seniora. Árni tapaði fyrstu en fékk uppreisn og tapaði henni líka og þar með fallin úr keppni. Hrafn (13-16 sæti) tapaði einnig fyrstu viðureign en í uppreisnarglímu vinnur hann öflugan Svía á á ippon með sínu sterkasta bragði kouchi gari en því miður tapar hann næstu og féll einnig úr keppni. Það var svipað hjá þeim Kjartani Hreiðarsyni og Hákoni Garðarssyni sem kepptu í U18 -73 kg. Kjartan tapaði fyrstu og síðan uppreisnarglímunni og féll úr keppni en Hákon (9-12 sæti) tapar fyrstu, vinnur uppreisnarglímu með shimewaza og tapar þeirri þriðju og féll þá einnig fallin úr keppni. Það gekk mun betur seinni daginn þegar keppt var í U21 árs aldursflokki en þá urðu viðureignirnar átján og sigrar og töp 50/50. Alexander Heiðarsson -60 kg tapar fyrstu, vinnur næstu og tapar þeirri þriðju. Það hefur örugglega haft áhrif á Alexander (9-16 sæti) að hann var ekki alveg heill heisu því hann var með hita. Hákon Garðarsson -73 kg tapaði báðum sínum viðureignum og dagurinn hjá Hrafni Arnarssyni (17-24 sæti) var eins og fyrri dagurinn en hann tapar fyrstu, vinnur uppreisnarglimu og tapar þeirri þriðju. Kjartan Hreiðarsson -73 kg vinnur tvær og tapar tveimur. Var það vel gert hjá Kjartani (17-24 sæti) sem glímdi þarna mjög vel en bæði hann og Hákon eru aðeins fimmtán ára gamlir og voru því á yngsta ári í aldursflokknum U21 árs. Árni Lund -81 kg vinnur sex viðureignir af sjö. Hann vinnur fyrstu, tapar næstu en vinnur svo síðan næstu fimm viðureignir nokkuð örugglega sem voru allar með stuttu millibili og tók bronsverðlaunin. Þetta er skrýtið kerfi þetta Danska keppniskerfi. Það fá allir minnst tvær glímur sem er fínt en stundum þurfa menn að glíma aftur við sama andstæðing sem er ekki fínt. Einnig þarf að vinna fleiri viðureignir til að vinna til bronsverðlauna heldur en til gullverðlauna eins og t.d. í -81 kg flokknum en þar þurfti 5 glímur í gull en 7 í brons. En hvað um það þetta var glæsilegur árangur hjá Árna og vel gert hjá honum að sigra í sex viðureignum af sjö á þessu móti sem er alltaf að verða sterkara en til samanburðar voru 587 keppendur núna frá 17 þjóðum á móti 311 keppendum frá 11 þjóðum á síðasta Matsumae Cup. Hér eru úrslitin og hér er hægt að skoða flestar viðureignirnar.