Sveinbjörn Iura sækir að Szwarnowieki í gólfinu

Budapest Grand Slam fór fram um helgina. Gert var hlé á mótaseríu Alþjóða Judosambandsins (IJF) vegna Covid-19 veirufaraldarins og var þetta fyrsta mótið í tæpa átta mánuði. Mótið var gríðar sterkt eins og venja er þegar um er að ræða Grand Slam mót. Keppendur voru 407 talsins frá 61 löndum. Karlar voru 256 og konur 151.

Sveinbjörn Jun Iura var eini fulltrúi Íslands og kepptí -81kg flokki. -81 kg flokkurinn var gríðar sterkur. 43 keppendur voru skráðir til leiks og er vert að taka fram að ellefu af tuttugu stigahæstu mönnum heimslista IJF voru meðal þátttakenda flokksins.

Sveinbjörn raðaðist upp á móti Damian Szwarnowiecki frá Póllandi í fyrstu umferð. Áttust þarna við tveir örvhentir Judomenn og einkenndist viðureign þeirra af mjög jafnri gripabaráttu. Hvorugur náði sterkum gripum en Szwarnowiecki sótti samt sem áður í veikar vinstri seonage sóknir sem skiluðu ekki skori, með þessu móti náði hann samt sem áður að draga Sveinbjörn í gólfglímu. Swarnowieck er gríðarlega góður gólfglímumaður og er aðallega þekktur fyrir sérstaka útfærslu af sangaku hengingartaki. Swarnowiecki gerði harða atlögu að Sveinbirni í gólfinu og var búinn að ná fastataki á einum tímapunkti en Sveinbjörn varðist vel og náði að losa sig. Glíman fór að miklu leiti fram í gólfglímu og átti Sveinbjörn tækifæri að snúa glímunni í gólfinu sér í vil. Þegar um tvær mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma náði Swarnowiecki að skora wasaari með vinstra osoto-makikomi. Ekki var meira skorað í viðureigninni og dugaði því þetta Swarnowiecki til sigurs og var Sveinbjörn þar með úr leik. Hér má sjá glímu Sveinbjarnar og Swarnowiecki.