Matsumae Cup 2023 fór fram um helgina 18-19 febrúar í Vejle Danmörku. Mótið var gríðarlega fjölmennt en þátttakendur voru rúmlega 700. Átta íslensk ungmenni kepptu á mótinu.

Fyrri keppnisdagur U18/Senior

Fyrri daginn fór fram keppni í aldursflokkum U18 og Senior. Frammistaða þriggja íslenskra keppenda stóð upp úr en það voru þau Romans Psengjis, Helena Bjarnadóttir og Aðalsteinn Björnsson.

Romans keppti í -66kg flokki í U18, en þar voru alls skráðir 28 keppendur til leiks. Romans mætti fyrst Nilo Eriksson frá Saltsjö Judoklub og sigraði örugglega þegar hann kastaði á drop seonage. Næst mætti hann Narek Vardanian frá Svíðþjóð. Vardanian sigraði, en hann endaði 1. Sæti í flokknum seinna um daginn. Romans fékk uppreinsar glímu og sigraði hann fjóra næstu andstæðinga sína, alla á glæsilegum ippon köstum. Romans mætti svo Simon Andersen frá Danmörku í viðureign um brons verðlaun. Glíman var mjög jöfn og fór hún í gullskor. Þegar um það bil 2 mínútur voru liðnar af framlengingu skoraði Andersen wasaari með mótbragði og varð því Romans að láta sér linda 5.sætið.

Helena keppti í -70kg flokki í U18. Í fyrstu umferð mætti hún Elviru Skoglund frá Svíðþjóð. Helena sigraði sannfærandi eftir að hafa skorað tvívegis wasaari. Næst mætti hún Saana Hiltunen frá Finnlandi. Helena sigraði Hiltunen þegar sú Finnska fékk þriðja refsistigið fyrir sóknarleysi. Helena mætti svo Ellemiek Mosterman frá Hollandi í undanúrslitum. Sigraði Mosterman viðureignina með uppgjafartaki. Helena glímdi því næst um bronsverðlaun gegn Vilja Kördel frá Svíðþjóð. Helena byrjaði glímuna af krafti og komst fljótlega yfir þegar hún skoraði wasaari með seonage. Helena varð samt sem áður að játa sig sigrað þegar Kördel sótti fast að Helenu í gólfinu og nái henni í fastatak og endaði því Helena í 5. Sæti.

Aðalsteinn keppti í -73kg flokki í U18. Aðalsteinn sigraði fyrstu tvær viðureignir sínar á ippon en tapaði svo þeirri þriðju í fjórðungsúrslitum. Aðalsteinn fékk uppreisnar glímu og sigraði hana á ippon og einnig næstu viðureign þar á eftir og glímdu því um bronsverðlaun. Aðalsteinn mætti David Johanek frá Tékklandi í bronsglímunni þar sem Johanek hafði betur.

Aðrir Íslendingar glímdu ekki um verðlaun þrátt fyrir góða spretti. Þar má nefna Mikael Ísaksson sem keppti -73kg U18. Ísak sigraði Þrjár viðureignir en tapaði tveim og endaði í 9. Sæti. Kjartan Hreiðarsson, keppti -73kg Senior, vann tvær viðureignir en tapaði tveim.

Seinni keppnisdagur U21

Allir keppendur íslenska liðsins kepptu í U21 á seinni keppnisdegi mótsins. Bestu frammistöðu dagsins átti Kjartan Hreiðarsson sem keppti -73kg. Kjartan mætti einbeittur til leiks og sigraði fyrstu tvo andstæðinga sína. Í þriðju umferð mætti Kjartan Rory Tyrell frá Englandi. Tyrell hafði betur og fór alla leið og endaði uppi sem sigurvegari flokksins. Kjartan mætti Wassholm í uppreisnarglímu. Kjartan lenti snemma wasaari undir en þegar um það bil 20 sekúndur voru eftir af viðureigninni sýndi Kjartan ein glæsilegustu tilþrif mótsins þegar hann nær armlás í kjölfar misheppnaðrar sóknar Wassholm. Kjartan mætti næst Simon Krizek frá Tékklandi. Krizek sigraði viðureignina á armlás og var Kjartan þar með úr leik. Endaði Kjartan í 8. Sæti.

Hægt er að sjá úrslit mótsins í heild sinni hér.

Hægt er að sjá streymi frá útsendingu mótsins hér.