Þá er einstaklingskeppni lokið með góðum árangri. Aðalsteinn Karl Björnsson sá og sigraði sinn flokk örugglega með nokkuð miklum yfirburðum en hann er þá fyrsti Íslendingurinn úr öllum greinunum á leikunum sem sigrar til Gullverðlauna. Helena Bjarnadóttir átti einnig góðan dag en hún komst í bronsglímu þar sem hún tryggði sér bronsið með öflugri hengingu. Einnig voru nokkrir af okkar keppendum sem komust í bronsglímur en þurftu að játa sig sigruð eftir þær. Glímurnar stóðu margar tæpar og átti okkar fólk í bronsglímum góðar glímur þar sem lítið vantaði upp á sigur.

Aðalsteinn virðist vera á mikilli uppleið og verður spennandi að fylgjast með honum á komandi mótum. Hann verður því miður ekki með í liðakeppninni á fimmtudaginn þar sem hann þarf að fara fyrr heim af leikunum vegna útskriftar úr MR. Aðalsteinn mun eyða sumrinu í Georgíu þar sem hann mun æfa en Georgía er með sterkari löndum í Judo.

Aðalsteinn með gullið
Helena með bronsið

Afreksuppbygging sambandsins virðist vera að skila sér í bættum árangri keppenda og stefnum við í rétta átt í þeim málum. Þormóður Árni Jónsson, Afreksstjóri JSÍ, vann mikla vinnu ásamt Bjarna Skúlasyni, sem situr nú í Afreksnefnd JSÍ, við að setja saman umgjörð og stefnu í afreksmálum sambandsins. Zaza Simonishvili skilar sínu sem landsliðsþjálfari JSÍ og er greinilegt að þjálfun hans skili sér í afrekum okkar keppenda.