
Helena Bjarnadóttir átti góðan dag á Evrópubikarmóti EJU í Riga í dag. Þar sigraði hún allar sínar viðureignir að úrslitum undanskildum. Þar þurfti hún að játa sig sigraða eftir 3 mínútur og 58 sekúndur af glímutíma. Úrslitaglíman var heldur jöfn allan tíman og hefði geta farið á hvorn veginn. Helena barðist vel í dag og fer heim með silfur.
Fyrsta keppnisdag Evrópubikarmótsins kepptu þau Eyja Viborg í -52kg flokki og Orri Helgason í -66kg flokki.
Eyja Viborg barðist vel í sinni glímu en tapaði henni á tveimur waza-ari stigum eftir 2 mínútur og 48 sekúndur. Lenti hún í fastataki tvisvar sem hún náði að losa sig úr. Keppendinn sem hún mætti er feiknagóð í ne-waza og öflugt af Eyju að losa sig úr fastatökum hjá henni.
Orri Helgason í -66kg byrjaði sína glímu af krafti og virtist eiga yfirhöndina fyrstu tvær mínútunar þar sem hann sótti betur og var næstum búinn að læsa í juji-gatame. Um 10 sekúndur inn í þriðju mínútu átti hann góða ura-nage sókn en mótherjinn yfirsnérist og lenti á maganum. Orri fékk á sig waza-ari og 2 yuko og tapaði sinni glímu eftir fullan glímutíma. Var hann þá úr leik eftir hörku viðureign.
Seinni keppnisdaginn kepptu þau Helena Bjarnadóttir í -70kg flokki, Jónas Björn Guðmundsson í -73kg flokki, Viktor Davíð Kristmundsson í +90kg flokki og Weronika Komendera -57kg flokki.
Jónas átti nokkuð sannfærandi sóknir í kata-guruma og hengingar og virtist ekkert langt frá því að geta verið yfir. Viðureignina tapaði hann á refsistigum eftir 3 mínútna og 35 sekúndna glímutíma, þá með eitt yuko á sér. Var þetta önnur glíman hans á þessu stigi og skýrt að hann á vel heima á mótum af þessu kaliberi.
Viktor átti þrjár glímur. Sat hjá í fyrstu. Í 16 keppenda umferð átti hann góða byrjun. Virtist eiga yfirhöndina og var sannfærandi í tökum sínum. Mótherji hans virtist lítið ráða við tökin hans og hékk mikið á honum. Viktor sótti í o-uchi-gari og uchi-mata bragðfléttu sem mótherji hans náði að snúa sér í hag með mótbragði yoko-guruma eða tilraun til ura-nage eftir um 2 mínútna og 30 sekúndna glímutíma. Viktor fór þá að gefa meira í því sem leið á restina og reyndi hvað hann gat. Endaði glíman eftir fullan glímutíma og Viktor með eitt yuko á sér.
Næstu glímu átti Viktor á móti töluvert reyndari keppanda sem hefði 15 glímur á skrá af sambærilegum mótum. Viktor þá með 2 að baki. Mótherji hans náði yuko á Viktor eftir 1 mínútu og 48 sekúndur. Viktor virtist enn ákveðnari inná vellinum og reyndi hvað hann gat. Viðureignin hélt áfram nánast út glímutímann þar sem Viktor var undir um einu yuko stigi eða þar til um 18 sekúndur voru eftir. Óð hann þá í mótherja sinn beint í vel tímasett o-uchi-gari og skellti honum beint á bakið sem gaf honum ippon. Sigraði Viktor þannig á flottu kasti.
Þriðju viðureignina barðist Viktor vel en þurfti að játa sig sigraðan eftir fullan glímutíma með eitt yuko á sér. Slóst hann sannfærandi allan glímutímann og virtist ekkert langt frá því að geta haft mótherja sinn. Góð reynsla í bankann eftir þrjár viðureignir.
Weronika átti fyrstu viðureign á móti yngri systur bronsverðlaunahafa á Ólympíuleikunum 2024. Barðist hún af krafti allan glímutímann og greinilegt að Weronika ætlaði að sigra. En þegar um 6 sekúndur voru eftir lenti hún í fastataki sem gaf hinni ippon. Var þá Weronika úr keppni eftir hörku viðureign.
Gaman var að fylgjast með okkar fólki og greinilegt að afreksprógram JSÍ er að skila árangri. Margir keppendur farnir að ná áberandi framförum og árangur á alþjóðavísu að færast í aukarnar.