Egill skorar gegn Geronimo

Egill Blöndal og Sveinbjörn Iura kepptu núna um helgina á Grand Prix Montreal. Egill byrjaði mjög sannfærandi gegn Geronimo frá Mexikó. Geronimo fékk fljótlega refsistig fyrir sóknarleysi og fylgdi Egill því svo eftir með því að skora Waza ari með góðu kasti um miðbik glímunar. Eftir það sótti Geronimo stíft og náði svo að skora ippon með fallegu uchimata kasti þegar um það bil ein mínúta var eftir af viðureigninni. Sveinbjörn Iura beið lægri hlut gegn Alexandre Arencibia frá Kanada í 81kg flokknum eftir jafna og harða glímu. Alexandre náði snemma forskoti með því skora waza ari (kata-guruma) og náði hann að halda því þrátt fyrir mikla baráttu Sveinbjörns. Þar með lauk þátttöku Egills og Sveinbjörns á Grand Prix Montreal í þetta skiptið. Verða þeir félagar áfram í Montreal við æfingar þar sem þeir taka þátt í alþjóðlegum æfingabúðum (Olympic training center) en næst munu þeir keppa á Grand Prix Zagreb þann 26-28 júlí.