Þá er Opna Finnska lokið og keppti Kristján í dag síðastur okkar manna. Honum gekk ekki vel og tapaði fyrir Finna sem endaði í sjöunda sæti og þar með féll Kristján úr keppninni þar sem hann fékk enga uppreisnarglímu. Árangur hinna en þeir kepptu allir í gær, var þannig að Ægir og Jón Þór töpuðu sínum fyrstu  glímum en fengu uppreisanrglímu og töpuðu þeim líka.  Ægir glímdi fyrst við norðurlandameistarann frá því í vor Svíann Joakim Dvarby og síðan Eistlending en Jón Þór glímdi fyrst við Rússa sem vann síðan 81 kg flokkinn og í uppreisnarglímu gegn Finna. Hermann og Birgir unnu tvær og töpuðu tveimur. Birgir vann Finna í fyrstu glímu á yuko en tapaði þeirri næstu gegn Rússa sem varð í öðru sæti í flokknum. Í uppreisnarglímu vann Birgir síðan Dana á wazaari og tapar þeirri fjórðu gegn Finna. Svipaða sögu er að segja af Hermanni. Hann byrjar á að vinna Finna á yuko, tapar fyrir Rússa í næstu glímu, vinnur Svía á ippon í þriðju glímunni og tapar þeirri fjórðu gegn Finna. Þeir Birgir og Hermann enduðu því í níunda sæti af þrjátíu og einum keppanda. Af Þormóði er það að segja að hann hans fyrsti mótherji var Rússinn Alexander Mikhaylin þrefaldur heimsmeistari í þungavig. Því miður hef ég ekki fengið upplýsingar hvernig glíman gekk fyrir sig en allavega tapaði Þormóður glímunni og Alexander sigraði flokkinn að lokum. Þormóður fékk uppreisnarglímu gegn Eistlendingi og vann hann á ippon en tapaði þeirri næstu gegn öðrum Eistlendingi sem varð í þriðja sæti. Þormóður endaði í sjöunda sæti. Þetta er líklega eitt sterkasta Finnska mótið í langan tíma þar sem Rússar fjölmenntu með fjörtíu og sjö keppendur og meðal þeirra verðlaunahafa af heimsmeistaramótum. En það eru ekki bara heimsmeistarar frá Rússlandi á mótinu því Bretar sendu fyrrum Ólympíu og heimsmeistara sem keppir í -60 kg flokki. Hér er tengill á öll úrslit.