IMG_3341Hér eru úrslit Afmælismóts JSÍ í karla og kvennaflokkkum. Afmælismót JSÍ fór fram í gær og voru keppendur rúmlega fimmtíu frá öllum félögum og þar á meðal allir okkar sterkustu menn ef undan er skilinn Hermann Unnarsson -81kg sem hætti við keppni á síðustu stundu vegna meiðsla. JR ingar unnum flest verðlaunin að þessu sinni auk þess að vinna bikarkeppni karla sem fram fór strax að loknu afmælismótinu. Keppnin var jöfn og spennandi í flestum flokkum en fór þó nokkuð eins og búast mátti við en þó ekki alveg. Birgir Ómarsson (Ármann) sem keppir venjulega í -81 kg flokki keppti nú í -90kg og mætti þar Þorvaldi Blöndal félaga sínum úr Ármanni í úrslitum. Flestir bjuggust við auðveldum sigri Þorvaldar en Birgir var á öðru máli og glímdi alveg frábærlega og sigraði á fallegu ippon kasti á lokasekúndunni, sannarlega óvænt úrslit þar.

Þorvaldur  fékk uppreisn æru er hann sigraði í opnum flokki eins og hann hefur reyndar margoft gert áður. Þormóður Jónsson úr JR vann þungavigtina örugglega, Ingþór Valdimarsson (KA) vann -100kg flokkinn, Sveinbjörn Iura (Ármanni) var öruggur sigurvegari í -81kg og það sama má segja um Kristján Jónsson (JR) í – 73kg flokki en hann keppti til úrslita við félaga sinn Eirík Kristinsson(JR) og var sú glíma líklega einna best glímd og ekki síður spennandi. Kristján leiddi glímuna með yuko (5 stig) þar til fimmtíu sek. voru eftir en þá náði hann glæsilegu seionage (axlarkasti) og sigraði á ippon. Að lokum þá sigraði Eysteinn Finnson (Ármann) nokkuð örugglega -66 kg flokkinn. Í kvennaflokkum var hörkukeppni og margar glímur ákaflega spennandi og vel glímdar. Sigrún Elísa Magnúsdóttir (JR) sigraði bæði opinn flokk og +78 kg flokkinn, Kristín Ásta Guðmundsdóttir (KA) sigraði í -70kg og Ásta Lovísa Arnórsdóttir -57kg.