Logi,Ingi Þór og Jón Þór

Logi,Ingi Þór og Jón Þór

Opna Sænska Juniora var haldið í Stokkhólmi um helgina. Þátttakendur frá Íslandi voru tveir þeir Ingi Þór Kristjánsson sem keppir í -73 kg þyngdarflokki í U20 og Logi Haraldsson sem keppir einnig í -73 kg þyngdarflokki en í U17 og báðir úr JR. Þjálfari og fararstjóri í ferðinni var Jón Þór Þórarinsson landsliðsmaður og þjálfari hjá JR.  Keppendur á mótinu voru alls 255 frá frá 8 þjóðum og voru það allar Norðurlandaþjóðirnar auk Serba, Þjóðverja og Hollendinga. Ingi Þór Kristjánsson vann gullverðlaun eftir að hafa lagt af velli alla sína andstæðinga og nokkuð örugglega. Í flokknum hans voru 28 keppendur og keppti hann fimm glímur. Fyrst mætti hann Thomas Hansen (DEN)  og vann hann á yuko. Næst var það Vincent Evers (SWE) sem laut í lægra haldi gegn Inga Þór er hann kastaði honum með Drop seionage (axlarkast) snemma í viðureigninni og vann hann á ippon. Ingi Þór var nú kominn í átta manna úrslit og mætti næst Benjamin Darville (DEN). Þetta var hörku glíma sem Ingi Þór hafði fulla stjórn á og var aldrei í hættu en átti engu síður erfitt með að sækja á Danann en vinnur hann þó fyrir rest á yuko og aftur með Drop seionage kasti. Í undanúrslitunum og mætti hann Frederik Agertoft (DEN) og hafði Ingi Þór yfirburði í tökunum og skorar fljótlega yuko með Osoto gari (fótkast) og stuttu seinna ippon með glæsilegu Harai goshi (mjaðmarkast) og vinnur sína fjórðu glímu í röð og er kominn í úrslitin.  Þar mætti hann heimamanninum Christian Borghesi (SWE) og eins og fyrr um daginn var Ingi Þór með yfirburði í tökunum og vann viðureignina örugglega og það á ippon með fallegri bragðfléttu sem byrjaði í Seio nageo en endaði á Osoto gari og tryggði sér gullverðlaunin. Í lok dagsins var Ingi Þór einnig valinn besti júdómaður mótsins.
Logi Haraldsson stóð sig einnig vel er hann varð í fimmta sæti eftir hörkukeppni um bronsið. Hann vann fyrstu viðureign gegn Riku Merisaari frá Finnlandi með Harai goshi (mjaðmarkast) og fékk fyrir það wazaari. Næst mætti hann Dananum David Hedegaard og var glíman nokkuð jöfn en Logi glímdi skynsamlega og Daninn fékk tvö shido (refsistig) fyrir sóknarleysi. Einnig átti Logi ágætis Harai goshi sóknir en náði ekki að skora úr þeim svo hann vann viðureignina að lokum á yuko. Nú var Logi kominn í undanúrslit og mætti Finnanum Matti Juopperi en tapaði á ippon er honum var kastað með Te guruma (handkast). Þar sem Logi tapaði í undaúrslitum þá keppti hann um bronsið og var það gegn Norðmanninum Henrik Reitan. Sú viðureign var mjög jöfn og spennandi og hefði alveg eins getað fallið Loga í vil þvi oft var hann rétt við það að skora en að lokum varð hann að játa sig sigraðan þegar Henrik komst í gott Osoto gari og skoraði ippon.