Sveitakeppni kvenna 2012Sveitakeppni karla 2012Sveitakeppni JSÍ fór fram um helgina og fór mótið fram hjá JR í Ármúlanum. Það voru tvær kvennasveitir og þrjár karlasveitir skráðar til leiks og komu þær frá JR, ÍR og Ármanni. Í sveitakeppni kvenna var það A sveit JR sem hafði betur gegn JR-B og sigraði með þremur vinningum gegn einum. Í sveitakeppni karla voru sveitir frá ÍR, JR og Ármanni. ÍR ingarnir töpuðu báðum sínum viðureignum og því kepptu til úrslita eins og svo oft áður sveit JR og sveit Ármanns og fóru leikar þannig að sveit Ármanns vann með þremur vinningum gegn tveimur vinningum JR inga. Bæði JR ingar og Ármenningar urðu fyrir skakkaföllum fyrir mótið. Ármenningar höfðu engan keppanda í -73 kg flokknum þar sem þeirra menn komu ekki í vigtun og urðu því að gefa fyrirfram þann flokk og Þormóður Jónsson sem keppa átti í þyngsta flokknum fyrir JR veiktist daginn fyrir mótið og lá heima með flensu og var það mikil blóðtaka fyrir JR því hann er allra sterkasti júdómaðurinn í þungavigtinni í dag. Í úrslita keppninni milli JR og Ármanns fóru leikar svona. Keppnin í léttasta flokknum -66 kg var líkast til allra mest spennandi viðureignin sem fram fór í dag og réðst ekki fyrr en á  lokasekúndunum. Þar mættust þeir Janusz Komendera úr JR og Vilhelm Svansson úr Ármanni. Keppendur í þessum þyngdarflokki eru afar snöggir og mikill  hraði á þeim og oft erfitt henda reiður á hver gerði hvað. Snemma í glímunni skorar Janusz og fær yuko og ekki löngu seinna fær Vilhelm shido, refsistig fyrir sóknarleysi og Janusz með góða forystu. Það er hart barist og þegar um tvær múnútur eru eftir skorar Vilhelm wazaari og er skyndilega kominn yfir en fær samt shido 2 stuttu seinna en það dugar ekki til fyrir Janusz sem sækir án afláts og ógnar Vilhelm verulega en nær ekki að skora. Þegar aðeins nokkrar sekúndur eru eftir fær Vilhelm sitt þriðja shido fyrir sóknarleysi sem þýddi að nú var Janusz kominn yfir á ný  og aðeins rétt áður en tíminn rann út og vann því nánast á lokasekúdunni. Þar sem enginn var frá Ármanni í -73 kg flokknum fékk JR vinninginn án þess að Eiríkur Kristinsson þyrfti að keppa. Í -81 kg flokknum áttust við frábærir júdómenn þeir félagar Sveinbjörn Iura og Kristján Jónsson. Fyrirfram var búist við jafnri og spennandi keppni en viðureignir þeirra hafa oftast ekki ráðist fyrr en á síðustu þrjátíu sekúndunum eða í gull skori. Það kom því á óvart að aðeins voru liðnar um tvær mínútur þegar viðureigninni lauk því Sveinbjörn náði að sópa fótunum undan Kristjáni og fylgdi vel eftir og komst í fastatak og vann á ippon. Hinn geðþekki reynslubolti Bjarni Skúlason átti líkast til fallegasta kastið í dag þegar hann vann Ægir Valsson örugglega á tomo-nage í – 90 kg flokknum en viðureign þeirra var afar skemtileg og kröftug. Ægir sem verið hefur frá keppni í rúmt ár vegna axlarmeiðsla kemur afar sterkur til baka þó svo að hann hafi ekki að þessu sinni náð að ógna Bjarna verulega. Það verður spennandi að fylgjast með honum í framtíðinni. Sævar Róbertsson sem keppti í staðinn fyrir Þormóð stóð sig frábærlega gegn hinum firna sterka Þorvaldi Blöndal. Sævar náði snemma í glímunni að kasta Þorvaldi og leiddi glímuna með yuko þar til um tvær mínútur voru eftir en þá jafnar Þorvaldur og vinnur svo á ippon mínútu síðar. Úrslitin urðu því eins og áður sagði  að sveit Ármanns vann með þremur vinningum gegn tveimur vinningum JR inga. Hér eru öll úrslitin og fleiri myndir á morgun.

Karlar- viðureignir
Karlar riðill

Konur- viðureignir
Konur riðill