Júdómót RIG 2013 verður í umsjón Júdósambands Íslands að þessu sinni og haldið samhliða 40 ára Afmælismóti JSÍ og mun það verða opið mót sem kynnt verður erlendis og kallast Reykjavik Judo Open. Keppnin fer fram laugardaginn 19. janúar í Laugardalshöllinni á tveimur keppnisvöllum frá klukkan 10:00-16:00. Þetta verður sterkasta mót ársins þar sem búist er við þátttöku allra norðurlandanna auk landsliðsmanna frá Rússlandi sem að Ezio Gamba landsliðsþjálfari Rússa og nýkjörinn þjálfari ársins 2012 í Rússlandi mun velja en hann mun verða viðstaddur mótið ásamt forseta og varaforseta EJU (Evrópu Júdósambandsins) þeim Sergey Soloveychik og Michal Vachun. Ezio Gamba sem er fyrrum Ólympíu gullverðlaunahafi mun síðan dagin eftir mót vera með æfingu fyrir keppendur. Nánari upplýsingar þegar nær dregur.