Bronsverðlaun hjá Sveinbirni. Axel Ingi Jónsson landsliðsþjálfari valdi og fór með þrjá keppendur á alþjóðlegt mót, Holstein Open sem haldið var í Þýskalandi um helgina. Það voru þau Ásta Lovísa Arnórsdóttir sem keppti í -57 kg flokki, Ingi Þór Kristjánsson -73kg flokki og Sveinbjörn Iura -81kg flokki. Sveinbjörn komst lengst þeirra og hafnaði í þriðja sæti, Ásta keppti um bronsverðlaun en tapaði og Ingi Þór varð í 9. sæti. Sveinbjörn glímdi fyrst við Nico Kaeding, frá þýskalandi og vann örugglega með ippon kasti. Næsta viðureign hans var gegn Faruch Bulekular (GER) og byrjaði Sveinbjörn af krafti eins og venjulega og var ógnandi. Þjóðverjinn sem er gríðaöflugur náði fljótlega yfirhöndinni og þegar Sveinbjörn hugði ekki að sér komst hann í góða stöðu og kastaði Sveinbirni og vann á ippon. Sveinbjörn fékk upprreisnarglímur sem urðu þrjár og voru mótherjar hans frá Hollandi og Þýskalandi. Hann vann þær allar örugglega með ippon köstum og endaði með bronsverðlaunin en fyrrgreindur Faruch vann flokkinn. Það voru níu stelpur í 57 kg flokknum hjá Ástu. Hún mætti þýskri stelpu í fyrstu viðureign og glímdi mjög sannfærandi. Hún var alltaf fyrri til að ná tökum og sækja og komst að lokum í gott bragð og vann á ippon. Næsta viðureign hennar gekk ekki eins vel því henni gekk illa að ná tökum og þar af leiðandi gat hún lítið ógnað. Andstæðingur Ástu náði hinsvegar að skora og komast yfir og hélt því forskoti þegar tíminn rann út þrátt fyrir öfluga baráttu Ástu sem tapaði þessari viðureign á stigum. Hefði hún unnið þessa viðureign hefði hún komist í úrslit en keppti þess í stað um bronsið en tapaði eins og áður sagði. Ingi Þór mætti Hollendingi í fyrstu viðureign og gekk honum vel til að byrja með en þegar viðureignin var umþað bil hálfnuð virtist sem þeir hefðu farið út fyrir keppnissvæðið og Ingi Þór hætti að glíma, hélt að viðureignin hefði verið stöðvuð en Hollendingurinn nýtti sér það og kastaði Inga á ippon. Ingi Þór fékk þó uppreisnarglímur og vann þá fyrri á stigum en í þeirri síðari varð hann að játa sig sigraðan eftir umþað bil tvær mínútur þegar honum var kastað á Ippon.