Baku JudoFyrstu álfuleikar Evrópu eru haldnir í Baku í Azerbaijan þessa dagana en þeir standa yfir frá 12.-28. júní. Þar er keppt í hinum ýmsu íþróttagreinum og meðal annars júdó. Evrópumeistaramótið í júdó sem halda átti í Skotlandi í vetur en var aflýst verður haldið í Baku samhliða Evrópuleikunum. Þeir Sveinbjörn Iura (-81kg) og Þormóður Jónsson (+100kg) höfðu unnið sér inn keppnisrétt á þessum leikum og áttu að keppa þar um næstu helgi en því miður voru meiðslin sem Þormóður varð fyrir á Grand Prix í Budapest sl. sunnudag verri en leit út fyrir í fyrstu og er liðband í hné trosnað eða slitið og getur hann því ekki keppt í Baku og verður frá keppni næstu tvo til þrjá mánuði. Sveinbjörn mun hinsvegar fara og leggur hann af stað í nótt og verður Axel Ingi honum til aðstoðar í Baku. Júdó keppnin sem fer fram í stórglæsilegri höll hefst 25. júní en keppnin í 81 kg flokknum verður föstudaginn 26. júní og hefst kl. 6 að morgni að íslenskum tíma (Baku er 5 tímum á undan okkur) og úrslit hefjast að ísl. tíma kl. 14. Hér er hægt að fylgjast með framvindu keppninnar og líkast til verður bein útsending á Ippon.TV