gp_budapestÞeir Þormóður Jónsson og Sveinbjörn Iura töpuðu báðir fyrstu viðureign og þar með var keppni þeirra lokið. Því miður er kerfið svona, grimmur niðurskurður og engin uppreisn nema menn komist í átta manna útslátt en það er hægara sagt en gert. Í annars ágætri viðureign varð Sveinbjörn fyrir því óláni að gleyma sér þegar hann varðist sókn Moldóvans og greip í buxur hans en það er ekki leyfilegt og fékk því hansokumake sem á fótboltamáli kallast að fá að líta rauða spjaldið og þar með var keppni hans lokið. Þormóður átti ágætis glímu og var í þrígang og með sama bragðinu rétt við það að kasta Þjóðverjanum sem náði í öll skiptin að bjarga sér. Þjóðverjinn var kominn með refsistig og dæmið leit vel út fyrir Þormóð en þá sótti hann skyndilega og eldsnöggt í sodotsurikomi sem Þormóður reyndi að bjarga sér úr en því miður gekk það ekki og lenti hann á bakinu og þjóðverjinn komst í fastatak. Þormóður snéri sig á hné við byltuna og gat því lítið varist og tapaði viðureigninni. Næsta verkefni strákanna er Evrópumeistaramótið í Baku eftir tæpar tvær vikur og verður Þormóður þá vonandi búinn að jafna sig í hnénu. Úrslitin eru  hér og hér.