EM2Þeir Logi Haraldsson -81kg og Egill Blöndal -90kg kepptu s.l. helgi á Evrópumeistaramóti juniora (U21 árs) í Oberwart. Logi mætti Viktar Kliavusau (BLR) og var það hörku viðureign sem stóð út allan glímu tímann og endaði með sigri hvít rússans sem vann Loga á yuko. Sigurvegarinn úr viðureign Loga og Viktar myndi mæta Gugava frá Georgíu sem er í fjórða sæti heimslistans og var fyrirfram talinn sigurstranglegastur á mótinu. Viktar gerði sér lítið fyrir og vann hann á ippon eftir stutta viðureign sem segir manni þá hversu öflugur judomaður Logi er orðinn. Viktar endaði í sjöunda sæti. Egill mætti mjög einbeittur í fyrstu viðureig þar sem hann mætti Johannes Pacher frá Austurríki. Eftir tæpar 40 sek. var Egill búinn að sigra en hann fór inn í tomo-nage sem tókst ekki alveg en nóg til þess að hann komst í armlás sem að Johannes reyndi hvað hann gat til að sleppa úr en Egill vann sig mjög skipulega og ákveðið í betri stöðu og Johannes gafst upp. Virkilega vel unnið hjá Agli. Næst mætti hann rússanum Mikhail Igolnikov sem er í áttunda sæti heimslistans og þar varð hann að játa sig sigraðan eftir stutta viðureign en Mikhail lenti í þriðja sæti. Eins og áður hefur komið fram þá var Yoshihiko Iura tilnefndur af EJU til að dæma á mótinu og stóð hann sig vel í dómgæslunni.