Oceania Open 2015Þeir Hermann Unnarsson og Þormóður Jónsson kepptu um helgina á Oceania Open í Wollongong 2015 í Ástralíu. Hermann Unnarsson hóf keppni í gærkveldi og komst í aðra umferð í -73 kg flokknum eftir öruggan ippon sigur á Piriyev Ismayil frá Azerbaijan eftir tæplega mínútu viðureign. Í sextán manna útslætti mætti hann Bensted Jake frá Ástralíu en hann vermir 26. sæti heimslistans. Hermann sem kominn var með tvö refsistig tapaði þeirri viðureign á ippon um miðja glímutímann og féll þar með úr keppni því engin er uppreisnin fyrr en komið er í átta manna útslátt. Þormóður Jónsson keppti í kvöld í +100kg flokknum og endaði hann í 5. sæti og lyfti sér aðeins ofar á heimslistanum. Hann keppti alls fjórum sinnum og í fyrstu viðureign sigraði hann Parente Aristidis á ippon eftir aðeins rúma mínútu með Osoto-harai goshi, næst mætti hann Sam Rosser frá Nýja Sjálandi og vann hann einnig á ippon þegar hann kastaði honum á vinstra Osoto gari (sjá hér) um miðjan glímutímann. Í undanúrslitum mætti hann Mohammed Amine Tayeb frá Alsír og þar tapaði Þormóður á refsistigum en báðir voru komnir með þrjú refsistig og þegar 45 sek. voru eftir af viðureigninni fékk Þormóður sitt fjórða refsistig og var þar með búinn að tapa og missa af úrslitaviðureigninni en Mohamed mætti þar Uzhangi frá Azerbaijan og sigraði. Þormóður átti nú eina viðureign eftir og það var keppni um bronsverðlaunin og þar mætti hann Juhan Mettis frá Eistlandi. Þormóður byrjaði af krafti en Juhan varðist vel og náði síðan tökum á viðureignini, skoraði tvö yuko og þegar tvær mínútur voru eftir sótti Þormóður í hægra Osoto gari en náði Juhan ekki úr jafnvægi sem náði hinsvegar að pikka Þormóð upp og kastaði honum á einhverskonar mjaðmakasti (sjá hér) og fékk ippon fyrir það. Þrátt fyrir að komast ekki á pall þá er þetta vel ásættanlegur árangur því 5. sæti lyftir honum ofar á heimslistanum og eins og staðan var fyrir þetta mót þá var hann inni á Ólympíuleikunum og þessi árangur styrkir stöðu hans þar en það verður ekki fyrr en í lok maí sem endanlega verður ljóst hverjir ná að vinna sér inn keppnisrétt á leikana.