20161022_122121Haustmót seniora 2016 var haldið í dag á Selfossi og eru úrslitin hér. Til leiks voru skráðir um þrjátíu keppendur og leit út fyrir þokkalegt mót en þegar vigtun var lokið vantaði um þriðjung keppenda. Einhverjir höfðu látið vita fyrir vigtun af fjarveru sinni sem ýmist stafaði af veikindum, meiðslum eða komust ekki vegna vinnu en svo voru aðrir sem mættu ekki og létu engan vita. Það er afleitt þegar  svona mikil afföll verða en það er enn verra þegar það er tilkynnt seint eða bara alls ekki því þá er útilokað að gera einhverjar ráðstafanir eins og td. að fresta móti. Keppendur eru margir hverjir að koma langt að og sumir þurfa að keyra nálægt þúsund km. (fram og til baka) og vita ekki betur en að nóg sé af mótherjum og lenda síðan í því að flokkar eru sameinaðir og verða því að keppa upp fyrir sig í flokki eða sleppa því að vera með. Ekki er það síður virðingarleysi gagnvart mótshaldara sem þarf að leggja í ýmsan undirbúning eins og flutning á dýnum milli húsa, finna starfsmenn og fleira og fleira. Nú þurfa forsvarsmenn klúbbanna að setjast niður með sínum iðkendum og ræða þetta fyrir næsta mót og fá þá til að vera svolítið ábyrga fyrir skráningunum sínum þannig að við lendum ekki í þessu aftur og enginn verði skráður til leiks nema að 99% líkur séu á því að hann mæti.