Gísli Vilborgarson tók þátt í OTC æfingabúðunum í Tata í Ungverjalandi dagana 3-8 apríl. OTC æfingabúðir er verkefni sem EJU kom á laggirnar árið 2010 og eru haldnar víðs vegar um Evrópu ár hvert. Þær eru án efa bestu æfingabúðir sem völ er á enda mætir þar rjóminn af bestu judomönnum og konum heims og einstakt tækifæri á að reyna sig gegn þeim og læra af þeim. OTC í Tata var ekki á dagskrá hjá JSÍ að þessu sinni svo Gísli fór einn og lét vel að dvölinni en leist stundum ekki á blikuna. Hann sagði að flestir sem þarna voru hefðu nánast valtað yfir sig og það hefði ekki verið auðvelt val að mæta eða mæta ekki á næstu æfingu en þær voru tvisvar á dag í fimm daga. Hann lét sig að sjálfsögðu hafa það og kláraði æfingabúðirnar. Þetta var flott framtak hjá Gísla og alveg hans ákvörðun og hans klúbbs að taka þátt í OTC Tata og undirbúa sig sem best fyrir komandi verkefni.