Frábæru Íslandsmóti karla og kvenna 2017 sem var haldið í Laugardalshöllinni í dag 30. apríl lauk með því að ellefu nýjir Íslandmeistarar voru krýndir og þar af sex sem voru að vinna titilinn í fyrsta sinn. Kynslóðaskipti eru að eiga sér stað þessa mánuðina hjá íslenskum judomönnum og í dag urðu nokkrir af þeim sem fyrirfram var reiknað með að myndu sigra að lúta í lægra haldi fyrir yngri keppendum. Því miður gat Þormóður Jónsson ekki verið með að þessu sinni en hann hefur einokað þungavigtina og opna flokkinn undanfarin ár og hefði verið spennandi að sjá hann takast á við ungu mennina í -90 og -100 kg flokknum. En svona það helsta, Anna Soffía Víkingsdóttir (Draupni) sigraði tvöfalt þ.e. -78 kg flokkinn og opinn flokk kvenna, Ásta Lovísa Arnórsdóttir (JR) sigraði -63 kg flokk kvenna eftir spennandi og jafna úrslitaviðureign gegn Ingunni Rut Sigurðardóttur og réðust úrslitin í gullskorskeppni. Axel Kristinsson (Ármanni) sigraði örugglega -60 kg flokkinn og það sama gerði Janusz Komendera (JR) í -66 kg flokknum. Gísli Vilborgarson (JG) glímdi gegn Hermanni Unnarssyni (JR) til  úrslita í 73 kg flokknum og fyrirfram var Hermann talinn líklegri til að vinna en Gísli var ákveðinn og fylginn sér og kom Hermanni á óvart með fínu kasti og sigraði flokkinn og var það fyrsti Íslandsmeistaratitill Gísla í karlaflokki. Það var einnig fyrsti Íslandsmeistaratitill Loga Haraldssonar (JR) í -81 kg flokki karla þegar hann lagði Árna Lund (JR) í spennandi og jafnri úrslitaviðureign. Svo var það -90 kg flokkurinn og þar bjuggust flestir við því að Sveinbjörn Iura (Ármanni) myndi bera sigur úr bítum gegn Agli Blöndal (Selfoss) en það fór þó öðruvísi því Egill skoraði wazaari rétt undir lok viðureignar og hafði Sveinbjörn ekki tíma til að rétta sinn hlut og tapaði. Þeir mættust reyndar aftur seinna um daginn og þá í úrslitum opins flokks karla og mætti Egill fullur sjálftrausts eftir fyrri viðureign þeirra félaga og sigraði aftur og vann því tvöfalt, bæði sinn flokk -90 kg og opinn flokk karla en Sveinbjörn tók silfrið. Íslandsmeistaratitlar Egils voru hans fyrstu í karlaflokki.  Piotr Szarek (JR) vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil þegar hann sigraði -100 kg flokkinn en Piotr kom hingað til lands fyrir nokkrum árum þegar hann tók þátt í Reykjavík Judo Open og líkaði honum vistin svo vel að hann kom aftur og býr nú hér. Hann keppti til úrslita í -100 kg við ungann og bráðefnilega judomann Grím Ívarsson (Selfoss) sem varð að játa sig sigraðan og fékk silfrið. Grímur keppti einnig í opnum flokki og þar endaði hann  hann með bronsverðlaunin ásamt Loga Haraldssyni. Að lokum þá sigraði Ingibergur Sigurðsson (JR) þungavigtina +100 kg flokkinn og var þetta einnig fyrsti Íslandsmeistartitill Ingibergs í judo en Íslandsmeistartitlar hans í Íslenskri Glímu eru fjölmargir. Hér eru úrslit.