Alexander Heiðarsson úr Draupni mun keppa á morgun 25. júlí á fjórtándu EYOF leikunum sem haldnir eru í Györ í Ungverjalandi að þessu sinni.  Alexander keppir í -55 kg flokki og hefst keppnin kl. 10 í fyrramálið að íslenskum tíma. Þetta er í tíunda skiptið sem Íslenskir judomenn eru á meðal þátttakenda á EYOF en það er keppni unglinga í aldursflokki 16-17 ára og er gríðasterkt og engan veikan hlekk að finna. Margir af sigurvegurum þessa móts í gegnum tíðina hafa stuttu seinna slegið í gegn í flokki fullorðinna og er eflaust þekktasta dæmið Ilias Iliadis (GRE) sem vann þettta mót í -73 kg flokki á EYOF 2001 í Murcia og gerði sér svo lítið fyrir og vann gullverðlaunin í 81 kg flokknum á Ólympíuleikunum í Aþenu þremur árum síðar þá 18 ára gamall. Fleiri mætti nefna eins og Beka Gviniasvili (GEO) sem vann -81 kg flokkinn á EYOF 2011 í Trabzon og Cyrille Maret sem vann +90 kg flokkinn á EYOF 2003 í París en báðir eru þeir í dag á meðal allra bestu judomanna heimsins. Þetta verður ekki auðvelt fyrir Alexander enda reiknar hann ekkert með því og mun hann örugglega gera sitt allra besta. Honum til aðstoðar er faðir hans Heiðar Jónsson. Dregið verður kl. 12 (ísl. tími) í dag í beinni útsendingu á Facebooksíðu leikanna. Hér má sjá alla þyngdarflokka og þar hægt að fylgjast með gangi keppninnar sem verður í beinni útsendingu.

Heiðar Jónsson og Alexander Heiðarsson