Þeir Jón Þór Þórarinsson og Hermann Unnarsson fóru með sjö manna hóp á Welsh Open Junior & Senior Championships 2017 sem fram fór í gær í Cardiff. Þar unnu til verðlauna þeir Alexander Heiðarsson og Egill Blöndal en Alexander varð í öðru sæti í U21 árs í -55 kg flokki og Egill í þriðja sæti í -90 kg flokki seniora. Þeir Árni Lund U21 -81 kg, Logi Haraldsson -81 kg seniora og Ægir Valsson í -90 kg flokki seniora kepptu allir um bronsverðlaun en urðu að lúta í lægra haldi en þeir Oddur Kjartansson í U21 -73 kg flokki og Dofri Bragason í -60 kg flokki seniora komust ekki eins langt. Fyrir hádegi var keppt í aldursflokki U21 árs. Í flokknum hans Alexanders voru þrír keppendur og vann hann fyrri viðureign sína en tapar þeirri síðari. Oddur  tapar fyrstu viðureign en fær uppreisnar glímu og vinnur hana en tapar svo þeirri þriðju og er þar með úr leik. Í flokknum hans Árna voru sextán keppendur og tapaði hann fyrstu viðureign en vann næstu þrjár og fimmtu viðureign, bronsviðureigninni tapaði hann eins og áður sagði en þá var hún komin í gullskor. Seniorar kepptu eftir hádegið, Dofri Bragason fékk tvær viðureignir og tapaði þeim báðum. Í flokknum hans Loga voru sextán keppendur og komst hann í undanúrslit með því að vinna fyrstu tvær en í undanúrslitum tapar hann og keppti því um bronsverðlaunin. Í 90 kg flokknum voru sextán keppendur og tapaði Ægir fyrstu viðureign en vinnur næstu og einnig þá þriðju þar sem mótherji hans mætti ekki og tapar svo bronsglímunni. Það sama gerði Egill í 90 kg flokknum  hann tapar fyrstu, vinnur næstu og þriðju þar sem eins og hjá Ægi mótherji Egils mætti ekki og þar með var Egill kominn í bronsviðureignina sem hann vann örugglega.