Góumótið sem halda átti fyrir viku en var frestað vegna veðurs var haldið í dag. Yfir fjörtíu keppendur voru upphaflega skráðir til keppni en breytt dagsetning hefur eflaust haft eitthvað með það að gera að ekki skiluðu sér allir í dag en keppendur voru þrjátíu og komu frá eftirfarandi judoklúbbum, Grindavík, ÍR, JR, Selfossi og Þrótti. Góumótið er keppni yngstu iðkendanna (8-10 ára) og þar eru allir sigurvegarar og fá gullverðlaun fyrir þátttökuna. Börnunum er raðað saman eftir aldri og þyngd eins og venja er og keppa stúlkur og drengir saman í flokkum. Mótið í dag var frábær skemmtun og börnin sýndu oft á tíðum ótrúlega flott judo miðað við unga aldur. Það má ljóst vera að mikil gróska er  hjá öllum klúbbum landsins í yngstu aldursflokkunum eins og sjá mátti á Góumótinu í dag og afmælismóti JSÍ í gær en tæplega hundrað og fimmtíu keppendur voru skráðir til leiks frá níu klúbbum á þessi mót. Hér eru úrslitin frá Góumótinu.