Nú er búið að draga á Evrópumeistaramótinu í Ísrael. Það er óhætt að segja að það hefði verið hægt að fá auðveldari andstæðinga. Þormóður fær líklega erfiðasta andstæðinginn en hann mætir Guram Tushishvili (GEO) sem er í öðru sæti heimslistan, núverandi Evrópumeistari og margfaldur verðlaunahafi á Grand Slam mótunum. Í 90 kg flokknum sem Egill keppir í eru á meðal þátttakenda sex efstu menn heimslistans sem segir allt um styrkleika Evrópumeistaramóts. Egill mætir David Klammert (CZE) sem er í 19 sæti heimslistans og gríða sterkur judomaður sem og andstæðingur Loga en hann mætir Sami Chouchi(BEL) en hann er í 49 sæti heimslistans. Þetta verður strembið hjá strákunum en þeir bjuggust svo sem alltaf við því að þetta yrði ekki auðvelt en þeir eru í feykna formi og munu án efa selja sig dýrt. Hér er drátturinn og hægt er að fylgjast með keppninni í beinni útsendingu. Logi keppir á föstudaginn og á aðra viðureign en keppnin hefst kl. 8 að Ísl. tíma og Egill og Þormóður keppa á laugardaginn og eiga aðra og þriðju viðureign og hefst keppnin hjá þeim kl. 9 að Ísl. tíma.