Norðurlandamótið var haldið í Hilleröd í Danmörku dagana 26. og 27. maí sl.  og vorum keppendur rúmlega fimm hundruð frá öllum norðurlandaþjóðunum og frá Íslandi voru fjörtíu og tveir sem kepptu í öllum aldursflokkum, þ.e. U18, U21, karla og kvenna flokkum og Masters sem er keppni þrjátíu ára og eldri. Árangur okkar var flottur  en við unnnum til sex verðlauna. Þormóður Jónsson vann örugglega +100 kg flokkinn og þar með gullverðlaunin, Sveinbjörn Iura og Árni Lund kepptu um bronsverðlaunin í -81 kg flokki og hafði Sveinbjörn betur þannig að Árni varð í fimmta sæti í flokknum. Egill Blöndal keppti einnig um bronsverðlaunin í – 90 kg flokki karla gegn Finna og varð að lúta í lægra haldi og varð því í fimmta sæti eins og Árni. Í U21 árs hreppti Grímur Ívarsson silfur í -100 kg flokki og Árni Lund tók bronsverðlaunin í -81 kg flokki og það sama gerði Hekla Pálsdóttir í -70 kg flokki. Ari Sigfússon og Edda Tómasdóttir kepptu í Masters. Ari sem keppti núna í -90 kg flokki náði ekki að endurtaka leikinn frá því í fyrra er hann fékk bronsverðlaun en Edda hinsvegar vann bronsverðlaunin í Hilleröd í -70 kg flokki. Keppendur okkar stóðu sig ágætlega en auðvitað misvel og held ég að ekki sé á neinn hallað með því að segja að Árni Lund hafi staðið sig hvað best þó svo að hann hafi ekki landað gulli í U21 en það átti hann að gera. Hann glímdi sjö viðureignir í -81 flokki karla og vann fimm þeirra en tapar tveimur og báðum í gullskori  og í U21 árs glímdi hann sex viðureignir og vinnur fimm þeirra svo allt í allt vinnur hann tíu viðureignir af þrettán sem er harla gott. Unglingarnir okkar U18 stóðu sig með prýði en þeir voru að keppa á sínu sterkasta móti til þessa og voru flestir á yngsta ári í aldursflokknum en verða hinsvegar á elsta ári þegar NM verður haldið á Íslandi 2019. Það var keppt í sveitakeppni í fyrsta skipti í langan tíma en það hefur líkast til verið gert síðast fyrir um þrjátíu árum en núna var keppt í blandaðri sveit karla og kvenna. Sveitina skipuðu eftirtarandi, -57 enginn, -73 Gísli Vilborgarson, -70 Berenika Bernat, -90 Sveinbjörn Iura, +70 Anna Soffía Víkingsdóttir og +90 kg Þormóður Jónsson. Þetta var skemmtilegasti hluti mótsins og gríðarleg stemming.  Við byrjuðum á því að leggja Danina að velli en við skildum jöfn 3-3 eftir umferðina og þá var dregið random um einn flokk og skyldi keppt til úrslita með gullskorsfyrirkomulagi. það var -90 kg flokkurinn kom upp og þar var Sveinbjörn okkar maður en hann hafði lagt Danann í fyrri glímunni í gullskori og nú skildi keppt á ný en Sveinbjörn sem er í feykna formi glímdi gríðarlega vel og slengdi Dananum með fallegu Tai-otoshi og sigurinn var okkar. Næst mættum við Finnum og töpuðum fyrir þeim á stigum og einnig töpuðum við fyrir Svíum. Við kepptum ekki við Norðmenn þar sem þeir höfðu dregið lið sitt út úr keppninni eftir töp gegn Finnum og Svíum.  Danirnir unnu sem unnu Svía fengu silfurverðlaunin en þeir voru með jafnmarga vinninga og Svíarnir en færri tæknistig svo Svíarnir fengu því gullverðlaunin og Ísland bronsverðlaunin en við vorum líkt og Svíar með jafnmarga vinninga sveitar en fleiri tæknistig en Finnar. Landsliðsþjálfararnir þau Jón Þór Þórarinsson, Hermann Unnarsson og Anna Soffía Víkinsdóttir höfðu í nógu að snúast enda keppt á fjórum völlum og leystu þau sitt verk vel af hendi. Það sama gerðu dómararnir okkar þeir  Birkir Hrafn Jóakimsson og Björn Sigurðarson en þeir dæmdu tvo daga í röð frá morgni til kvölds og fjölda úrslitaviðureigna sem aðeins dómarar í betri kantinum eru látnir gera. Hér eru úrslitin og nokkrar myndir frá verðlaunaafhendingunni og hér er smá video samantekt þar sem bæði við og andstæðingar okkar fá fyrir ferðina.