Ársþing Júdósambands Íslands, það 48. í röðinni  var haldið laugardaginn 25. maí 2019 og hófst það kl. 11. Jóhann Másson formaður setti þingið og bauð þingfulltrúa og gesti velkomna. Gengið var til venjubundinnar dagskrár, kosið í kjörbréfanefnd sem þegar tók til starfa og aðrar fastar nefndir þingsins og starfsmenn. Í kjörbréfanefnd voru kjörnir Bjarni Friðriksson, Björn Halldórsson og Ari Sigfússon. Í fjárhagsnefnd voru kjörnir Runólfur Gunnlaugsson, Garðar Skaftason og Ásgeir Ásgeirsson. Í laga og leikreglnanefnd voru kjörnir Bjarni Friðriksson, Björn Halldórsson og Birkir Hradfn Jóakimsson. Í alsherjarnefnd voru kjörnir Ari Sigfússon, Gunnar Jóhannesson og Bergur Pálsson. Fundarstjóri var kjörinn Arnar Freyr Ólafsson og ritari Birkir Hrafn Jóakimsson. Kjörbréfanefnd skilaði áliti sínu. Níu félög höfðu rétt á þingsetu með tuttugu og fjóra fulltrúa en átta félög voru mætt með tuttugu og tvö atkvæði. Fulltrúi Júdodeildar Tindastóls mætti ekki og einn fulltrúa frá UMFG vantaði. Fráfarandi stjórn gefur skýrslu sína, Jóhann Másson formaður tekur til máls og kynnir hana, sjá ársskýrslu JSÍ. Runólfur Gunnlaugsson skoðunarmaður JSÍ kynnti ársreikning JSÍ í fjarveru Kristjáns Daðasonar gjaldkera, sjá ársskýrslu JSÍ. Ársreikningur borinn upp til samþykktar og var samþykktur með öllum greiddum atkvæðum. Stjórn JSÍ leggur fram tillögu að fjárhagsáætlun fyrir næsta starfsár. Jóhann Másson kynnir tillöguna og var hún send til umfjöllunar í fjárhagsnefnd. Fyrir þinginu voru tvær tillögur um gráðureglubreytingar, þingskjal 1 og 2 og um breytingu á þátttökugjöldum þingskjal 3. Fjórar tillögur þingskjöl 4 til 7 höfðu borist of seint en þingfulltrúar samþykktu að leggja þær fyrir þingið til umfjöllunar og afgreiðslu. Þingskjöl 1,2, 4,5,6 og 7 fóru í laga og leikreglna nefnd en þingskjal 3 fór í fjárhagsnefnd. Engin mál bárust Alsherjarnefnd og engar tillögur komu frá henni. Fjárhagsnefnd lagði ekki fram nýjar tillögur né breytingar á fjárhagsáætluninni fyrir næsta ár en lagði til að þingskjal 3 yrði samþykkt með breytingu.

Nefndarálit og tillögur.

Alsherjarnefnd. Engin mál bárust Alsherjarnefnd og engar tillögur komu frá henni.

Þingskjal 3. Stjórn Júdodeildar UMFN leggur fram eftirfarandi tillögu.Við hjá Judódeild UMFN viljum leggja til að á innifalið í mótsgjaldi sé leyfi til að keppa í tveimur aldursflokkum. Núverandi keppnisgjald er ekki ósangjarnt en er ansi hátt þegar einstaklingur tekur þátt í tveimur aldursflokkum og þarf þarafleiðandi að greiða tvöfalt. Fjárhagsnefnd leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi breytingu. “Keppendur sem keppa í fleiri en einum flokki greiði hálft gjald fyrir þann næsta” Samþykkt.

Þingskjal 1.  Stjórn Júdodeildar UMFN leggur fram eftirfarandi tillögu.Viljum leggja til að þjálfarar hvers félags fái að taka ákvörðun um hvort nemendur þeirra sem á ellefta ári séu hæfir til að keppa á Afmælismóti JSÍ sem fer fram í janúar. Ástæða þessa er að við teljum að of stuttur tími sè til stefnu til að gráða þó að félagið hafi prófdómara á sínum snærum.  Laga og leikreglnanefnd telur að halda skuli fast í það að enginn keppi án lágmarksgráðunnar 5.kyu. Mótið fer oftast nær fram í byrjun febrúar og því ætti að gefast nægur tími til að gráða t.d. fyrri hlutann í desember og seinni hlutann í janúar. Því er lagt til að reglurnar verði óbreyttar og tillögunni verði hafnað. Samþykkt.

Þingskjal 2.  Stjórn Júdodeildar UMFN leggur fram eftirfarandi tillögu. Hérna viljum við benda á að tsuri komi goshi er flókið kast og ætti heima í prófum fyrir hærri belti. Tillaga okkar er að skipta þessari tækni og setja aðra einfaldari í staðinn sem væri einnig betur tilfallinn til notkunar á mótum. Laga og leikreglnanefnd bendir á að sumum kunni að finnast þetta flókið bragð en öðrum ekki og bendir jafnframt á að ekki þurfi að framkvæma það eins og gert er í dan gráðunum þ.e. kata formi. Þetta er grundvallarbragð með grunntökum og á því vel við að byrja á því að læra það.  Nefndin leggur til að reglurnar verði óbreyttar og tillögunni verði hafnað. Samþykkt.

Þingskjal 4. Tækniráð JSÍ leggur fram eftirfarandi tillögu. Lagt er til að í aldursflokknum U13 verði drop seoinage bannað. Til að koma í veg fyrir slys á börnum er lagt til að í aldursflokknum U13 verði drop seoinage bannað. Ástæðan er sú að komið hefur fyrir oftar en einu sinni að uke lendir á andlitinu þar sem tori virðist ekki ráða við þessa tækni. Laga og leikreglnanefnd leggur til að tillagan verði samþykkt. Samþykkt óbreytt.

Þingskjal 5. Tækniráð JSÍ leggur fram eftirfarandi tillögu. Lagt er til að jafn mörg kastbrögð verði í öllum kyu beltaprófum og tvö brögð, Morote gari og Te guruma sem ekki eru lengur leyfileg verði tekin út. Í appelsínugula beltinu eru 8 kastbrögð og þar af er Morote gari eitt þeirra og í bláa beltinu eru 6 brögð og er Te guruma eitt þeirra. Lagt er til að taka þessi fyrrgreidu brögð út og færa Hiza guruma frá appelsínu gula beltinu yfir á blá beltið og þá eru sex kastbrögð í öllum kyu beltaprófunum. Laga og leikreglnanefnd leggur til að tillagan verði samþykkt. Samþykkt óbreytt.

Þingskjal 6. Tækniráð JSÍ leggur fram eftirfarandi tillögu. Koshi Guruma er bannað í aldursflokknum U14. Til skýringar á því hvenær Koshi Guruma hefst og hver sé resfsingin við því að nota það þá er lagt til að þegar framhandleggur tora er komin yfir miðlínu jakka hjá uke þá skal kalla mate og gefa aðvörun en við endurtekið brot skal gefa shido. Laga og leikreglnanefnd leggur til að tillagan verði samþykkt. Samþykkt óbreytt.

Þingskjal 7. Stjórn JSÍ leggur fram eftirfarandi tillögu. Lagt er til að fyrir gráðuna 1. dan verði bætt við skilyrði II. og er það hugsað fyrir fyrir þá sem ekki geta uppfyllt skilyrði I. þar sem þeir eru ekki keppendur eða hættir keppni en virkir iðkendur. Skilyrði II: – Tími sem 1. kyu fjögur ár og lágmarksaldur 20 ára. Störf innanlands, uppfylla skilyrði A eða B. – Skilyrði A. Hafa starfað á 28 mótum (allt mótið) á vegum JSÍ. Störf á mótum eru fyrst og fremst mótsstjórn, tímavörður, dómgæsla og umsjón tækjabúnaðar. Skilyrði B. Hafa unnið í stjórn JSÍ eða nefndum á vegum JSÍ í 4 ár samfleytt og mætt á fundi og skilað þeim verkefnum sem honum var falið. – Hafi viðkomandi unnið í stjórn JSÍ skemur en 4 ár telst sá tími sem hann var í stjórn honum til tekna og þarf því að starfa á þeim mun færri mótum til að uppfylla skilyrði A en eitt ár telst sem 7 mótLaga og leikreglnanefnd leggur til að tillagan verði samþykkt. Samþykkt óbreytt.

Fulltrúi ÍSÍ Þráinn Hafsteinsson tók til máls og bar þinginu kveðju ÍSÍ og veitti þeim Jóni Hlíðari Guðjónssyni og Bjarna Ásgeiri Friðrikssyni gullmerki ÍSÍ en þeir voru að hætta störfum hjá JSÍ eftir að hafa verið meira og minna innan stjórnar JSÍ í 30 ár.

Kosning heiðursformanns var næst á dagskrá. Jóhann Másson tók til máls og kynnti að stjórn JSÍ hefði samþykkt að leggja til að Bjarni Ásgeir Friðriksson yrði kosinn heiðursformaður JSÍ og var það samþykkt af þingfulltrúum og er Bjarni sá fimmti sem þennan heiður hlýtur en fyrir voru þeir Eysteinn Þorvaldsson, Magnús Ólafsson, Michal Vachun og Sigurður H. Jóhannsson.

Önnur mál. Tryggvi Gunnarsson tekur til máls. Hann ræðir Kata og finnst hreyfingin ekki gera henni nógu hátt yfir höfði. Ræddi hugmynd að fá fagmenn til að búa til kennslumyndband í Kata og óska liðsinnis Yoshihiko Iura við það. Hann ræddi um dan gráðanir þrjátíu ára og eldri erlendis og sagði að t.d í Svíþjóð þá þyrftu þeir að fara í einskonar meirapróf, þeirra gráðanir væru fyrirferðameiri. Hann vildi fá fundargerðir og ársfundargerðir á vef JSÍ. Það kom fram í svörum til hans að ársfundagerðir væru nú þegar á vefnum en ekki fundargerðir stjórnar og voru ýmsar skoðanir á því hvort setja ætti þær á vefinn í styttri útgáfu og var ekki einhugur um það. Hann talaði um að hann vildi meira af fréttum frá JSÍ og netföng og tengiliður vegna erlendra samskipta tengd JSÍ. Guðmundur Stefán Gunnarsson tekur til máls. Þakkar Bjarna Friðrikssyni fyrir störf sín. Talar um fundargerðir, um aukna þátttöku og virkjun mannauðs og dreifingu ábyrgðar.

Nú var komið að kosningu í nefndir, stjórn JSÍ, varamanna í stjórn og skoðunarmanna.
Í aganefnd voru kjörnir Guðmundur S. Gunnarsson, Haraldur Baldursson og Gísli Jón Magnússon. Til vara Tryggvi Gunnarsson, Víkingur Víkingsson og Daníel Reynisson.
Í dómaranefnd voru kjörnir Björn Sigurðarson, Sævar Sigursteinsson og Birkir Hrafn Jóakimssonurðarson. Til vara Jón Sigurðsson, Daníel Leó Ólasson og Yoshihiko Iura.
Kosningu fulltrúa á ÍSÍ þing þurfti ekki þar sem ÍSÍ þing var nýafstaðið.
Kosning stjórnar, varamanna og skoðunarmanna.
Kosning stjórnar:
Kjósa á formann og tvo aðalmenn til tveggja ára. Jóhann Másson var einn í framboði til formanns og var hann kjörinn með lófaklappi. Í kjöri aðalmanna voru fjórir aðilar og þurfti því að kjósa á milli þeirra. Í framboði voru, Ari Sigfússon, Birgir Ómarsson, Birkir Jóakimsson og Karen Rúnarsdóttir. Birkir fékk 14 atkvæði, Ari 11, Birgir 10 og Karen 7 og voru þeir Birkir og Ari því kjörnir í stjórn til næstu tveggja ára.
Kosning varamanna til eins árs: Kjósa á um þrjá varamenn og kom tillaga um þau Birgir Ómarsson, Teit Sveinsson og Karenu Rúnarsdóttur og voru þau kosinn í fyrrgreindri röð. Skoðunarmenn: Tillaga kom um Runólf Gunlaugsson sem skoðunarmann og Gísla Jón Magnússon til vara og voru þeir kjörnir.

Þá var dagskráin tæmd, formaður JSÍ tók til máls og þakkaði traustið sem hann hlaut í formanns kjörinu, þakkaði nefndarmönnum og starfsmönnum þingsins fyrir þeirra aðkomu og þingfulltrúum og gestum fyrir komuna sleit þingi um kl 14.