Þá er keppni lokið á GSSE 2019 í einstaklingskeppninni og unnum við til fernra verðlauna, eitt silfur og þrjú brons en það voru þeir Alexander Heiðarsson, Árni Lund og Þór Davíðsson sem unnu til bronsverðlauna en Egill Blöndal komst lengst okkar manna en hann vann silfurverðlaunin. Egill glímdi til úrslita í -90 kg flokki við Schwendinger frá Lichtenstein. Egill skoraði snemma í glímunni og var sókndjarfur alla glímuna og leiddi. Þegar 24 sekúndur voru eftir jafnaði andstæðingur hans og fór glíman í gull skor. Því miður bar andstæðingur hans sigur úr bítum eftir að hafa skorað wazaari. Breki Bernharðsson glímdi um bronsverðlaunin í -73 kg flokki á móti Cedric Bessi frá Mónakó. Breki leiddi glímuna og var kominn wazaari yfir og glímdi vel og allt stemmdi í sigur. En undirlokinn var hann óheppinn og hleypti Mónakó manninum og of nálægt sér sem nýtti það og kastaði honum á O sota gari og tapaði Breki þar með glímunni og endaði í 5. sæti. Árni Pétur Lund glímdi um bronsverðlaunin í -81 kg flokki við andstæðing frá Möltu sem heitir Camillieri. Árni glímdi vel og stjórnaði glímunni en var óvænt kastað en ekki á ippon og náði hann að vinna sig í fastatak þar sem hann hélt Möltu manninum og vann sigur og þar með bronsverðlaunin. Þór Davíðsson glímdi í – 100 kg flokknum við Bezzina frá Möltu og var það hörkuglíma og mjög jöfn. Andstæðingur Þórs var komin með 2 shido en Þór eitt. Í miðri glímu skoraði andstæðingur hans wazaari og Þór þá kominn undir í glímunni. Þegar um 20 sekúndur voru eftir af glímunni fór Þór í gólfið með andstæðing sinn og náði að snúa honum á síðustu sekúndu glímunar og hélt honum þar til hann sigraði og bronsið var hans. Alexander Heiðarsson og Dofri Bragason mættust í bronsglímum í -60 kg flokki sem endaði með sigri Alexanders. Aðrir keppendur stóðu sig með sóma en komust ekki á pall að þessu sinni. Nú verður hvílt í einn dag og svo keppt í liðakeppninni á fimmtudaginn.